Þrátt fyrir varnaðarorð bandarísku sóttvarnastofnunarinnar hafa milljónir manna lagt land undir fót síðustu daga í tilefni þakkargjörðarhátíðarinnar. Og það á meðan smitum er enn að fjölga dag frá degi. En Bandaríkin eru ekki sér á báti. Evrópuríki hafa glímt við sama vanda síðustu vikur og nú hafa lönd í Austur-Asíu, sem hrósað hefur verið fyrir fádæmalausan árangur í baráttunni við kórónuveiruna, einnig bæst í þennan hóp.
Í Japan, Suður-Kóreu og Hong Kong hafa takmarkanir á ferðum fólks verið innleiddar að nýju eftir að smitum tók að fjölda hratt á ný. Skýringarnar á bakslaginu eru margar. Almenningur er orðinn langþreyttur á ástandinu og er farinn að upplifa hina umtöluðu farsóttarþreytu og hættur að fara eftir ströngustu sóttvörnum. Þá fer pirringur í garð stjórn- og yfirvalda einnig vaxandi. Ekki má svo gleyma kaldara veðri – sem eru kjöraðstæður fyrir hina skæðu veiru að grassera.
Stjórnvöld í Japan ákváðu að fara „íslensku leiðina“ og hvetja landsmenn til að ferðast innanlands og fara út að borða. Allt átti þetta að ýta vel við hagkerfinu en snerist upp í andhverfu sína og varð olía á eld þriðju bylgju faraldursins. Sú bylgja stendur enn yfir og í henni hefur hvert smitfjöldametið verið slegið á fætur öðru.
Í vikunni ákváðu borgaryfirvöld í Seúl í Suður-Kóreu að loka börum og næturklúbbum. Þá voru fjöldatakmarkanir settar á veitingastöðum. Aflétting fyrri aðgerða hafði verið skammgóður vermir og leitt að lokum til mikillar fjölgunar í smitum.
Sama leið var farin í Hong Kong í vikunni. Engir barir og næturklúbbar eru opnir. Í síðustu viku var búið að ákveða að fresta framkvæmd ferðabandalags við Singapúr, bandalags sem átti að tryggja frjáls og örugg ferðalög fólks milli svæðanna tveggja. Þessa tilraunaverkefnis hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu og átti að vera upphafið að sóttkvíarlausum ferðalögum milli landa í Asíu. En áður en verkefninu var ýtt úr vör hafði kórónuveiran náð að skjóta aftur upp sínum smitandi kolli í Hong Kong.
Þó að lönd í Austur-Asíu séu að glíma við veiruna í auknum mæli er baráttan þar ekki nándar nærri eins erfið og víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Daglega eru nú að greinast um 2.000 tilfelli í Japan á dag, um 300 í Suður-Kóreu og á mánudag greindust 73 með kórónuveiruna í Hong Kong. Til samanburðar þá eru um 150 þúsund manns að greinast í Bandaríkjunum á hverjum degi um þessar mundir.
Yfirvöld í Japan ætla ekki að bíða eftir því að faraldurinn fari úr böndunum. Þau hafa sérstakar áhyggjur þar sem hlutfall aldraðra er hærra þar í landi en víða annars staðar. Þá óttast þau að vetrarkuldi verði til þess að veiran komist frekar á flug milli fólks.