Í gær greindust tuttugu manns með COVID-19 hér á landi. Ellefu, eða rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindust, voru utan sóttkvíar. Í dag eru 176 í einangrun með sjúkdóminn og 528 eru í sóttkví. Flestir sem eru í einangrun eru á aldrinum 30-39 ára eða 35 einstaklingar.
Tæplega 1.190 manns voru í einangrun með COVID-19 samtímis í þriðju bylgju faraldursins þegar mest lét.
42 liggja nú á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af eru tveir á gjörgæsludeild. Frá því að faraldurinn hófst í febrúar hafa 26 manns látist vegna sjúkdómsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að blikur væru á lofti í þróun faraldursins og að ýmislegt benti til þess að veiran væri aftur að komast á flug í samfélaginu. Nefndi hann fjölgun smita við landamærin, fjölgun smita innlands og fjölgun smita hjá einstaklingum sem ekki eru í sóttkví.
Hann hefur skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um framhald aðgerða frá og með 2. desember. Á fundinum í gær vildi hann ekki upplýsa í hverju þær fælust en sagði að ef sýnt þætti að útbreiðslan á COVID-19 væri aftur að vaxa í samfélaginu gæti hann þurft að endurskoða tillögurnar fyrir þann tíma.