Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hefur kveðið upp úrskurð um að synja beiðni um lokun þinghalds í máli Mareks Moszczynski sem var í haust ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps á Bræðraborgarstíg 1. Þrír fórust í eldsvoðanum og tveir slösuðust alvarlega. Fjöldi fólks missti heimili sitt og aleiguna.
Úrskurður dómstjórans hefur verið kærður og beðið er niðurstöðu Landsréttar.
Verjandi Mareks fór fram á það í haust að þinghaldið yrði lokað á þeim forsendum að lýsingar sem í því kynnu að koma fram gætu reynst mikil þolraun og ættu ekki erindi við almenning. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari var því ósammála.
Marek neitar sök og niðurstaða geðmats í haust var sú að hann hefði verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Farið var fram á yfirmat, sem tveir geðlæknar framkvæma, og er enn beðið niðurstöðu þess. Því hefur dagsetning aðalmeðferðar í málinu ekki verið ákveðin.
Marek sem verður 63 ára í desember, bjó sjálfur í húsinu að Bræðraborgarstíg. Í því voru leigð út fjölmörg herbergi, aðallega til erlendra verkamanna. Hann er ákærður fyrir að hafa 25. júní kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð hússins og undir stiga sem lá upp á þriðju hæðina. Allir sem létust, tvær konur og einn karlmaður, bjuggu á þriðju hæðinni. Tvö þeirra urðu innlyksa í eldhafinu en önnur konan greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga. Hún lést skömmu síðar. Þau sem létust voru Pólverjar og á aldrinum 21-24 ára.
Kjarninn fjallaði nýverið ítarlega um brunann á Bræðraborgarstíg í fjölda greina. Þar kom m.a. fram að fjórtán íbúar voru heima er eldurinn kom upp. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði sitt að segja um þann fjölda. Að minnsta kosti fjórir höfðu misst vinnuna og tveir voru heima í fjarnámi þar sem staðnám hafði tímabundið verið lagt til hliðar. Aðrir voru í vaktavinnu; höfðu ýmist lokið morgunvakt eða voru í vaktafríi.
Tveir karlmenn sem einnig voru innlyksa á rishæðinni en komust lífs af sögðu sögu sína í viðtölum við Kjarnann. Öðrum þeirra var bjargað út um glugga á síðustu stundu en hinn stökk út um glugga herbergis síns. Hann slasaðist alvarlega en er á batavegi. Þeir sem og fleiri eftirlifendur sem Kjarninn ræddi við glíma við sálræn eftirköst eldsvoðans.
Maður sem var í herbergi sínu á annarri hæð hússins er eldurinn kviknaði hlaut alvarleg brunasár á stórum hluta líkamans og hefur gengist undir húðágræðslur og fleiri aðgerðir síðan.
Rústirnar standa enn
Brunarústirnar standa enn á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur sendi eigandanum bréf í lok október þar sem honum var gert að sækja um niðurrif og fjarlægja það sem eftir stæði af húsinu innan þrjátíu daga. Var honum gefinn fimmtán daga frestur til að gera athugasemd við ákvörðunina.
Hún barst byggingarfulltrúa um miðjan nóvember. Í henni kemur fram að eigandinn vilji ekki að húsið verði rifið strax. Það sé sönnunargagn í vátryggingamáli sem geti dregist í marga mánuði, jafnvel ár. Ákveði yfirvöld engu að síður að rífa það verði farið í mál og þau krafin bóta. Lögfræðingur byggingarfulltrúa er enn að fara yfir málið og ákvörðun um næstu skref verður tekin í framhaldinu.