Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra benti á það, í upphafi upplýsingafundar almannavarna í morgun, að búið væri að birta leiðbeiningar til landsmanna á vefnum covid.is um það sem þyrfti að hafa í huga yfir hátíðarnar vegna COVID-19.
Rögnvaldur sagði að landsmenn væru hvattir til þess að búa sér til jólakúlu, hóp af fólki sem það ætlaði að hitta um jólin. Því minni „kúlur“ og því færri, því betra, en hvorki á fundinum né í leiðbeiningum almannavarna koma fram leiðbeiningar um það hversu marga einstaklinga fólk ætti að reyna að hafa í sinni „jólakúlu.“ Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði gott að hafa í huga að í dag væru 10 manna fjöldatakmarkanir í gildi.
Fram kom í máli sóttvarnalæknis á fundinum að hann ætti von á því að ríkisstjórnin myndi koma sér saman um aðgerðir sem byggja á nýju minnisblaði hans og kynna þær formlega með reglugerð annað hvort í dag eða á morgun.
„Auðvitað er það þannig að við umgöngumst okkar nánasta fólk“
Blaðamenn óskuðu beint og óbeint eftir því á fundinum í dag að þeir Rögnvaldur og Þórólfur legðu mat á það hvort sá fjöldi einstaklinga sem heimsótti heimili Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns síðustu helgi hefði verið í takti við tilmæli almannavarna, en eins og Víðir greindi sjálfu frá urðu ellefu einstaklingar, auk hans sjálfs, útsettir fyrir smiti á heimili hans síðasta laugardag.
„Við höfum sagt það að við erum ekki að leggja dóm eða dæma þá sem eru að smitast eða þá sem eru í sóttkví því óvinurinn okkar er veiran sjálf og við erum ekki að búa til einhver tilfelli í kringum þá sem eru að smitast. Auðvitað reynum við af bestu getu að fara eftir eigin tillögum en við erum mannleg eins og við erum flest. Öll erum við að gera okkar besta og ég tel að það þurfi að gilda áfram. En auðvitað er það þannig að við umgöngumst okkar nánasta fólk, við eigum börn, við eigum foreldra og það er alveg greinilegt að veiran getur læðst inn í slíka hópa líka,“ sagði Þórólfur, spurður af Birni Inga Hrafnssyni hjá Viljanum um það hvort ekki væri mikilvægt að þau sem stæðu í framlínunni og beindu boðum til almennings færu eftir eigin tilmælum.
Hvorki hann né Rögnvaldur vildu sérstaklega leggja mat á þetta atriði þrátt fyrir að vera spurðir að því hvort skilaboðin til almennings um hvað væri við hæfi og hvað ekki þyrftu ekki að vera skýr.
„Að sjálfsögðu óskum við öll Víði og fjölskyldu góðs bata, en mér finnst samt nauðsynlegt að spyrja, sérstaklega núna í aðdraganda jóla, sá gestagangur sem var lýst á heimili hans. Var þetta í lagi og er þetta eitthvað sem má núna í desember?“ spurði Hólmfríður Gísladóttir blaðamaður á Vísi.
Rögnvaldur svaraði því til að honum þætti ekki rétt að svara því á þessum vettvangi, Víðir yrði örugglega meira en til í að ræða málið sjálfur þegar hann kæmi aftur úr veikindaleyfi. Þórólfur tók svo orðið í kjölfarið á því að fréttamaður ítrekaði spurningu sína:
„Skilaboðin eru þau að við erum að hvetja alla til að lágmarka alla hópamyndun. Við erum með 10 manna mörk núna, við erum með 2 metra reglu, leiðbeiningar um grímunotkun og handhreinsun og svoleiðis. [...] Við erum ekki að hvetja alla til að sitja inni og hitta ekki nokkurn mann, það væri „lockdown“ í raun og veru, ef við værum að hvetja alla til að fara ekki út. Við erum að hvetja fólk til að fara eftir þessu, þetta eru grunnreglurnar. Getur komið upp smit þó það sé farið eftir þessum reglum? Já. En þetta er til þess að lágmarka áhættuna,“ sagði Þórólfur og bætti því við að ef farið væri eftir þessum reglum ætti smithættan að vera í algjöru lágmarki.
Það sem almannavarnir segja að hafa þurfi í huga hafa þarf í huga yfir hátíðirnar
- Njótum rafrænna samverustunda
- Eigum góðar stundir með heimilisfólkin
- Veljum jólavini (hverja við ætlum að hitta yfir hátíðarnar)
- Hugum að heilsunni og stundum útivist í fámennum hópi
- Verslum á netinu ef hægt er
- Verum tilbúin með innkaupalista þegar farið er að versla
- Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim
- Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir.
Varðandi heimboð og veitingar
- Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið.
- Fylgjumst með þróun faraldursins.
- Virðum fjöldatakmarkanir og tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir.
- Forðumst samskotsboð („pálínuboð") og hlaðborð.
- Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
- Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur.
- Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
- Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega.
- Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá.
- Takmörkum fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn.
- Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
- Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur.
- Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.
Gisting
- Algengt er að vinir og/eðafjölskyldumeðlimir dvelji saman yfir hátíðirnar á sama heimili. Mikilvægt er að vera búin að gera ráðstafanir ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af COVID-19 á meðan heimsókn stendur. Við þurfum að huga að sóttkví, einangrun,heilbrigðisþjónustu og ferðalaginu heim ef um gesti er að ræða. Hvort sem við gistum að heiman eða fáum sjálf gesti yfir hátíðirnar þurfum við að huga vel að sóttvörnum, sérstaklega ef einhver er í áhættuhópi.
Á upplýsingavef almannavarna má finna nánari leiðbeiningar um ferðalög til og frá Íslandi fyrir hátíðarnar og tilmæli til rekstraraðila. Þar er svo hnykkt út með því að líkt og á öðrum tímum þurfi að huga að persónulegum sóttvörnum.
- Þvoum hendur reglulega
- Virðum nálægðarmörkin
- Loftum reglulega út
- Notum andlitsgrímur þegar við á
- Þrífum snertifleti reglulega
- Áríðandi er að við verndum viðkvæma hópa og verndum þá yfir hátíðarnar.