„Réttarríki er til af því að við viljum að það sé til. Ef við hins vegar fáum þann skilning að stofnanir þess séu plat þá fjarar undan því. Það má ekki gerast. Dómstólar þurfa því að vinna sér traust með réttlátum og yfirveguðum dómum. Geri þeir það ekki er hætt við að þeir grafi sér gröf.“
Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG og innanríkisráðherra, á boggsíðu sína en í færslunni fjallar hann um landsréttarmálið svokallað og niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem birtist í vikunni.
Hann segir að ekki einungis skuli horfa á niðurstöður MDE heldur hvaða viðfangsefni þyki verðug að taka fyrir í dómstól sem eigi að kveða upp úr um brot á mannréttindum. Þau mál sem vísað er til dómstólsins séu margfalt fleiri en þau sem hann hafi getu eða vilja til að taka fyrir.
Hvaðan kemur ákafinn í að fylgja málinu eftir?
„Fjöldi augljósra mannréttindabrota eru látin sitja á hakanum. Hins vegar er legið yfir því að koma höggi á íslensk stjórnvöld og Alþingi vegna máls sem er svo smávægilegt í hinu stærra samhengi að undrum sætir. Hvað veldur?“ spyr Ögmundur í færslunni. Enn fremur spyr hann hvort þetta sé ásetningur – og þá hverra.
„Ef þetta verður ekki tilefni fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassborg til að spyrja sjálfan sig áleitinna spurninga þá þurfa aðrir að gera það. Hver hefur gangur þessa máls verið? Hvaðan kemur ákafinn í að fylgja því eftir? Hvernig eru svona mál til komin og hverning eru þau unnin? Að hvaða marki koma Íslendingar að vinnslu mála á borð við þetta og síðan hvítflibba-þvotti sem nú er hafinn í Strassborg?
Allir þurfa aðhald. Líka dómarar í Strassborg,“ skrifar hann.
Telur niðurstöðuna í besta falli álitamál
Ögmundur segir að sömu aðilar, á meðal alþingismanna og lögmanna, sem vörðu för Róberts Spanó forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands fyrr á árinu að taka við heiðursnafnbótum frá helstu mannréttindaböðlum álfunnar, fagni nú þeirri niðurstöðu þessa sama dómstóls um að brotin hafi verið mannréttindi á einstaklingi sem ók próflaus undir áhrifum eiturlyfja og var dæmdur sekur á öllum dómstigum, vegna þess að einn dómarinn í Landsrétti hefði verið skipaður í embætti með ólögmætum hætti.
„Auðvitað var mergurinn málsins sá hjá dómstólnum í Strassborg að reyna að sýna fram á að skipað hefði verið í Landsrétt með ólögmætum hætti. Það er hins vegar í besta falli álitamál,“ skrifar hann og rekur ráðningarferlið í færslunni.
Hann segir að deila megi um hvort allir málsaðilar hafi staðið sig í stykkinu. Ef svo var ekki þá sé það nokkuð til að læra af.
Landsréttur var samkvæmt skilningi Ögmundar löglega skipaður á sínum tíma og lætur hann sanngirni liggja á milli hluta. Í þriggja þrepa ráðningarferlinu hefðu allir aðilar mátt vanda sig betur en vonandi læri allir af reynslunni, segir hann.
Í framhaldinu gagnrýnir hann Mannréttindadómstóllinn í Strassborg og segir hann vera á góðri leið með að „grafa svo hressilega undan sjálfum sér“ að hætt verði að taka hann alvarlega ef fram fer sem horfir.
Að því mun koma að dómararnir í Strassborg verði krafnir svara
Ögmundur segir að það að taka landsréttarmálið yfirleitt fyrir veki spurningar í ljósi þeirra grófu mannréttindabrota í ýmsum ríkjum Evrópu sem ekki fái afgreiðslu. Dómstóllinn hafi nú legið yfir því mánuðum saman á „himinháum skattlausum launum sínum“ að komast að þeirri niðurstöðu að lýðræðið hafi brugðist á Íslandi við skipan dómara í máli próflausa dópaða bílstjórans í Kópavogi.
„En nú er vandi á höndum. Dómarinn íslenski, sem hefur þurft að sæta einelti frá Strassborg, hefur í millitíðinni sótt um embætti sitt að nýju. Og viti menn, dómarinn var nú metinn hæfasti umækjandinn af öllum umsækjendum og hlaut skipun í embætti.
Hvað skyldu dómararnir í Strassborg segja við þessu? Hæfastur af öllum, en vel að merkja í fyrri skipan hafði dómarinn einnig verið metinn hæfur af matsnefndinni!
Frá þeim mun ekkert svar koma enda þurfa þeir engum að svara. En að því mun koma að þeir verði krafðir svara,“ skrfar Ögmundur.
Lesa má færslu Ögmundar í heild sinni hér.