„Niðurstöður úr rannsóknum á frárennsli sýna að kórónuveirufaraldurinn og samkomutakmarkanir sem honum fylgja hafa breytt mynstri fíkniefnanotkunar í Reykjavík,“ segir Arndís Sue-Ching Löve, verkefnastjóri á rannsóknarstofu í lyfja-og eiturefnafræði við Háskóla Íslands og doktorsnemi við læknadeild. Hún hefur frá árinu 2015 rannsakað magn ólöglegra fíkniefna í skólpi í Reykjavík og niðurstöður nýjustu sýnanna, sem tekin voru í byrjun júní, eru verulega frábrugðnar þeim sem hún hefur hingað til séð.
Síðustu ár hefur Arndís mælt aukningu í notkun kókaíns. Þannig mældist fjórfalt meira magn þess fíkniefnis í skólpinu milli áranna 2016 og 2018. En í „sýnum á COVID tímum“ sem tekin voru í sumar, mátti hins vegar merkja mikinn samdrátt í notkun kókaíns. Um 60 prósent minna af efninu fannst í skólpinu í sumar miðað við sambærilega rannsókn í apríl í fyrra. „Þetta sýnir fram á að það er breyting í notkunarmynstrinu,“ segir Arndís í samtali við Kjarnann.
Fleira áhugavert kemur upp úr kafinu þegar niðurstöður mælinganna tveggja eru bornar saman. Á sama tíma og magn kókaíns dregst verulega saman er ljóst að kannabisneysla hefur aukist um þriðjung miðað við apríl í fyrra. Hins vegar var notkun á amfetamíni, metamfetamíni og MDMA (e-töflur/Molly) svipuð milli ára.
Rannsókn Arndísar á fíkniefnum í skólpi er hluti af doktorsverkefni hennar sem hún er nú að leggja lokahönd á. Að auki tengjast þær samanburðarrannsókn sem nær til annarra Evrópulanda og niðurstöður hennar hafa verið birtar árlega síðustu ár.
Til rannsóknarinnar tekur Arndís sýni í tveimur skólphreinsistöðvum í Reykjavík; í Klettagörðum og Ánanaustum. Hverju sýni er safnað í 24 klukkustundir yfir heila viku í senn. Með þeim hætti sést sveifla í fíkniefnanotkun innan vikunnar, m.a. munurinn á neyslu um helgar, frá föstudegi til sunnudags, og annarra daga.
Í sumar var sýnum safnað á tímabilinu 4.-10. júní þegar samkomutakmörkunum hafði nýlega verið breytt úr 50 í 200 manns. Barir og aðrir vínveitingastaðir höfðu einnig verið opnaðir á ný en aðeins til klukkan 23 á kvöldin.
Arndís ítrekar að þar sem sýni voru aðeins tekin þessa einu viku endurspegli niðurstöðurnar ekki fíknefnanotkun yfir árið í heild. Alltaf megi vænta sveiflna á milli tímabila, og í ár mögulega á milli bylgja í faraldrinum og samkomutakmarkana þeim tengdum. „En þetta gefur þó ákveðna hugmynd um fíkniefnaneysluna þótt ákjósanlegast væri að taka sýni á hverjum einasta degi, árið um kring.“
Að sögn Arndísar er vel þekkt að notkun MDMA og kókaíns aukist um helgar. Það hafi hennar rannsóknir hingað til meðal annars sýnt. Slík afþreyingarneysla, eins og hún er kölluð, (e. recreational use) er einnig sjáanleg í kringum viðburði á borð við Iceland Airwaves. Árið 2017 tók Arndís sýni þá daga sem hátíðin stóð yfir og niðurstaðan var sú að neysla kókaíns og MDMA jókst marktækt á því tímabili.
Þó að sveiflur milli helga og annarra daga vikunnar megi sjá í þeim sýnum sem tekin voru í sumar er engu að síður áhugavert að hún er um margt ólík sveiflunum sem fyrri rannsóknir á skólpinu í Reykjavík hafa sýnt.
„Það var umtalsverð aukning á neyslu MDMA þá helgi sem sýnin voru tekin í sumar,“ segir Arndís en að sveiflan milli helgarinnar og virku daganna hafi þó ekki verið eins afgerandi nú og í apríl 2019.
Niðurstaðan er enn forvitnilegri þegar kemur að öðrum fíkniefnum. „Hvað kókaínið varðar er sveiflan ekki eins mikil innan vikunnar og hún var árið 2019,“ segir Arndís. Hún sá aðeins um tíu prósent aukningu milli daga í júní sem er ekki marktækur munur. „Þetta er allt annað mynstur en var í apríl 2019. Þá var magn kókaíns í skólpinu 40 prósent meira um helgar en aðra daga vikunnar. Og það voru tölur sem við höfðum séð áður í okkar rannsóknum.“
Hins vegar mældist í sumar sveifla í notkun á kannabis sem ekki hefur verið til staðar í fyrri rannsóknum. „Yfir helgina í vikunni sem sýnin voru tekin var hún 40 prósent meiri en aðra daga. Þetta er sveifla sem við höfum ekki séð áður. Í fyrri rannsóknum okkar höfum við ekki verið að mæla mikinn mun á vikudögunum þegar kemur að kannabisnotkuninni. Hún hefur verið stöðugri en neysla örvandi efna sem hefur gefið okkur vísbendingu um að afþreyingarneysla á kannabis væri ekki mikil. En það kann að hafa breyst.“
Arndís segir að ýmislegt geti skýrt breytt neyslumynstur á fíkniefnum í ár og að án efa leiki kórónuveirufaraldurinn og sóttvarnaaðgerðir stóran þátt. Framboð á efnum kann að hafa breyst vegna faraldursins og þá er mögulegt að styrkleiki þeirra hafi gert slíkt hið sama.
Rannsóknin sýnir notkun á ákveðnum efnum sem mælast í skólpinu, þ.e. magn þessara efna. Þannig að niðurstaðan getur annað hvort þýtt að hver skammtur af fíkniefninu innihaldi meira af hinu virka efni sem mælt er eða að fleiri séu að nota það nema að blanda að hvoru tveggja sé. „Þetta getum við ekki vitað út frá okkar gögnum en það er engu að síður hægt að nota þau til að bera saman tímabil og notkun milli landa. Þessi aðferðafræði auðveldar okkur allan slíkan samanburð.“
Neyslan mögulega færst af skemmtistöðum og í heimahús
Niðurstaðan fæst með mælingu á milligrömmum af tilteknum efnum á dag á hverja 100 þúsund íbúa. Ýmsir þættir eru svo teknir inn í greininguna, t.d. flæði vatns í gegnum hreinsistöðvarinnar. Það er því tekið tillit til þess sem Veitur hafa greint frá að heita vatns notkun á hvern íbúa hafi aukist um 11 prósent á þessu ári.
Á rannsóknartímabilinu voru skemmtistaðir aðeins opnir til kl. 23 og mögulega hefur skemmtanahaldið færst meira í heimahús. Fíkniefnaneysla er önnur í heimahúsum en á skemmtistöðum.
Spurð hvort fækkun ferðamanna vegna faraldursins hafi einhver áhrif á samanburð milli ára segir Arndís að fræðilega séð sé það mögulegt en hins vegar sé ómögulegt að taka sveiflur í fjölda ferðamanna með í reikninginn. Þeir séu eðli málsins samkvæmt mikið á ferðinni og ekki hægt að finna með einföldum hætti gögn um hvar þeir eru hverju sinni. Því sé í rannsókninni miðað við þann fjölda fólks sem búsettur er í Reykjavík.