Um helgina verður byrjað að bjóða forgangshópum í Moskvu, höfuðborg Rússlands, upp á að gangast undir bólusetningu gegn COVID-19 með rússneska bóluefninu Spútnik V. Vladimír Pútín forseti hefur fyrirskipað að almennar bólusetningar á stórum skala skuli hefjast í Rússlandi í næstu viku. Um tvær milljónir skammta eru þegar sagðir til reiðu.
Forsetinn skipaði ríkisstjórninni að hefja bólusetningar síðasta miðvikudag, einungis nokkrum klukkutímum eftir fregnir bárust af því að Pfizer-bóluefnið hefði fengið skilyrt markaðsleyfi í Bretlandi og til stæði að hefja bólusetningu þar í næstu viku. Rússnesk yfirvöld gáfu leyfi til þess að hefja bólusetningar með Spútnik V strax í lok ágúst og munu um 100.000 manns þegar hafa verið bólusett.
En nú á að setja allt af stað. Borgarstjóri Moskvu, Sergey Sobyanin, gaf út í gær að læknar, kennarar og starfsmenn félagsþjónustunnar í borginni yrðu fyrstir til þess að eiga kost á bólusetningu í bólusetningarmiðstöðvum sem settar yrðu upp víða um borgina.
Fullyrt að Spútnik veiti vörn í yfir 95 prósent tilfella
Rússneska bóluefnið er þróað af Gamaleya-stofnuninni í Moskvu, opinberri rannsóknarstofnun í faralds- og örverufræði. Segja framleiðendurnir að búið sé að forpanta yfir 1,2 milljarða skammta af Spútnik og að áhuginn á rússneska bóluefninu sé mikill utan landsteinanna.
Þegar er búið að flytja prufuskammta til Ungverjalands (við litla kátínu Evrópusambandsins), Serbíu, Indlands, Venesúela og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, auk fleiri ríkja. Búið er að skrifa undir samninga um að bóluefnið verði framleitt í stórum stíl í bæði Indlandi og Suður-Kóreu. Hér að neðan má sjá myndband af flutningi á skömmtum frá Rússlandi til Indlands.
Þriðja stigs klínískar rannsóknir á bóluefninu standa enn yfir, en fullyrt er af hálfu framleiðenda að þær bráðabirgðaniðurstöður sem liggi fyrir sýni fram á virkni í 95 prósent tilfella 42 dögum eftir fyrsta skammt og engar alvarlegar aukaverkanir.
Vestrænir vísindamenn hafa þó lýst yfir efasemdum um niðurstöður sem voru birtar í læknatímaritinu Lancet fyrr í ferlinu, en framleiðendur bóluefnisins og rússnesk stjórnvöld hafa vísað því á bug sem áróðursbrögðum. Vesturlönd vilji grafa undan góðu og traustu bóluefni Rússa.
Hvað sem alþjóðapólitíkinni líður þá eru margir innan Rússlands efins um bóluefnið, sem byggir á eitlaveirutækni svipaðri þeirri sem AstraZenica og Johnson & Johnson notast við í sinni þróun.
Ríkisstarfsmenn upplifa þrýsting um að gerast tilraunadýr
Í ítarlegri umfjöllun Reuters-fréttastofunnar sem birtist í dag kemur fram að enn hafi bara um 20 þúsund þátttakendur fengist í stóru þriðja stigs tilraunina, af þeim 40 þúsundum sem þurfi að taka þátt.
Reuters segir suma ríkisstarfsmenn hafa verið beitta þrýstingi um að taka þátt í rannsókninni og láta bólusetja sig. Pressan kom í sumum tilfellum frá þeirra yfirboðurum, sem höfðu fengið það verkefni að fá ákveðið marga starfsmenn sína til þess að gerast sjálfboðaliðar.
Fréttamenn Reuters í Moskvu fóru á stúfana og ræddu við þátttakendur sem komnir voru á heilsugæslustöðvar til að bjóða sig fram til þátttöku í tilrauninni nokkra daga í október og nóvember. Alls var farið á þrettán mismunandi stöðvar og rætt við 32 þátttakendur.
Af þeim sögðust 30 hafa heyrt af klínísku rannsókninni í vinnunni. Tuttugu og þrír sögðust vera á staðnum af fúsum og frjálsum vilja en níu manns sögðu að það væri ekki alfarið tilfellið. Öll voru þau starfsmenn hjá hinu opinbera og ræddu við Reuters í trúnaði.
„Það er ómögulegt að segja nei, það er bara ekki hægt,“ segir einn miðaldra maður sem starfar sem sjúkraflutningamaður í Moskvu. Vinnuveitendur hans fullyrtu í svari við fyrirspurn Reuters að enginn starfsmaður þaðan hefði verið þvingaður eða beittur þrýstingi til þess að gerast sjálfboðaliði.
Svipaða sögu um þrýsting sögðu kennari, tveir heilbrigðisstarfsmenn og götusópari, sem Reuters ræddi við á einni heilsugæslustöð í úthverfi Moskvu.
Spurður hvort hann hefði getað hafnað beiðni um að fara í bólusetningu svaraði götusóparinn hlæjandi: „Nei, við vinnum fyrir hið opinbera.“
Ekkert af þeim níu sem sögðust hafa mætt gegn eigin vilja enduðu þó á að gerast þátttakendur í tilrauninni. Ýmist stóðust þau ekki læknispróf eða þá að heilbrigðisstarfsfólkið sem starfar við klínísku rannsóknina veitti þeim einhverja tylliástæðu fyrir því að taka ekki þátt.
Blaðamaður mætir í sprautu
Fréttaritari þýska blaðsins Deutche Welle í Moskvu er þó búinn að láta bólusetja sig með Spútnik, en hann ákvað að láta slag standa og taka þátt í tilrauninni eftir að hafa séð vini sína veikjast alvarlega og þurfa að sæta langri einangrun eftir að hafa smitast af COVID-19.
Hann lýsir því í pistli á vef DW að hann hafi fengið sömu aukaverkanir og framleiðendur Spútnik V hafa gefið út að eðlilegt sé að fylgi sprautunni. Höfuðverkur, töluverður hiti (38,6°C) og vöðvaverkir voru á meðal einkenna sem blaðamaðurinn fann fyrir. Hann segist hafa glaðst, þar sem aukaverkanirnar þýði að hann hafi fengið bóluefni, ekki lyfleysu.
Aukaverkanirnar voru svo að mestu horfnar næsta dag. „Eftir þrjár vikur fæ ég annan skammt. Mér skilst að mótefni eigi að byrja að myndast 42 dögum eftir fyrsta skammt. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvort þau muni í raun geta komið í veg fyrir COVID-19,“ skrifar fréttaritarinn í pistli sínum, frá Moskvu.