Bóluefni bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer og þýska líftæknifyrirtækisins BioNTech var flutt í frystigámum til sjúkrahúsa víðs vegar um Bretland í dag. Tveir dagar eru þangað til að umfangsmesta bólusetning Breta hefst. Heimsbyggðin fylgist náið með því um er að ræða fyrstu almennu bólusetninguna gegn COVID-19 á heimsvísu.
Um 800 þúsund skammtar af bóluefninu verða til taks þegar bólusetningin hefst á fimmtíu heilbrigðisstofnunum í Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi á þriðjudag. „Þrátt fyrir margar flækjur munu sjúkrahús hefja fyrsta áfanga stærstu bólusetningarherferðar í sögu landsins á þeim degi,“ hefur AP-fréttastofan eftir Stephen Powis, forstjóra ensku ríkissjúkrahúsanna, NHS.
Bretland varð í síðustu viku fyrsta ríkið í heiminum til að heimila bólusetningu með bóluefni Pfizer-BioNtech. Prófanir á efninu þykja sýna að það veiti allt að 95 prósentum fólks vörn gegn því að sýkjast af kórónuveirunni.
Stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld víða um heim munu fylgjast náið með gangi mála og reyna að læra af reynslu Breta, bæði því sem vel tekst og því sem aflaga mun fara.
Breska lyfjastofnunin er einnig að yfirfara umsókn lyfjaframleiðendanna Boderna og Astra Zeneca sem segjast líka tilbúnir með sín bóluefni.
Dauðsföll af völdum COVID-19 eru komin yfir 61 þúsund í Bretlandi.
Sjúklingar sem eru áttræðir eða eldri og þurfa að sækja sér þjónustu göngudeilda verða meðal þeirra fyrstu sem fá bóluefnið í Bretlandi. Einnig munu þeir sem eru að útskrifast af sjúkrahúsi verða í forgangshópi.
Þá munu sjúkrahús almennt byrja á því að bjóða fólki sem er eldra en áttrætt að fá bólusetningu sem og starfsfólki á öldrunarheimilum.
Tvo skammta af bóluefni Pfizer þarf til að ná ónæmi og þrjár vikur þurfa að líða á milli sprautanna.
Bresk stjórnvöld hafa tryggt sér með samningum 40 milljónir skammta af bóluefni Pfizer-BioNtech sem duga þá til að bólusetja 20 milljónir manna. Í frétt AP kemur fram að aðeins sextán ára og eldri verði bólusettir og því þarf að bólusetja um 55 milljónir fólks í landinu.
Frá Belgíu til Bretlands
Bóluefnið er framleidd í Belgíu og var flutt þaðan til Bretlands. Sérfræðingar munu þurfa að rannsaka farminn þegar hann er kominn á leiðarenda til að ganga úr skugga um að bóluefnið hafi ekki spillst en það þarf að geyma í yfir 70 stiga frosti.
Þegar kemur að því að nota efnið þarf fyrst að þýða það í nokkrar klukkustundir áður en því er sprautað í fólk. Sérstökum bólusetningarstöðvum verður komið upp, m.a. í ráðstefnu- og íþróttahúsum til að anna eftirspurn eftir bóluefni þegar búið verður að framleiða meira magni af því og dreifa.
Þegar fram líða stundir munu heilsugæslustöðvar og stofur heimilislækna einnig fá bóluefnið til að gefa skjólstæðingum sínum. Þá munu apótek einnig geta bólusett fólk, rétt eins og þau bjóða upp á inflúensubólusetningar á hverju ári.
Vonast er til að bólusetning muni hefjast í Bandaríkjunum í þessum mánuði. Rússar hafa þegar hafið bólusetningar með bóluefni sínu Sputnik V. Það efni var aðeins prófað á fáum einstaklingum, segir í frétt AP.