Fjármálaeftirlit Noregs hefur varað norska bankann DNB við sekt upp á 5,7 milljarða íslenskra króna ef vegna lélegra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ríkissaksóknari Noregs rannsakar nú bankann vegna gruns um að hafa komið fjármunum Samherja í skattaskjól.
DNB greindi sjálfur frá aðvöruninni í tilkynningu sem barst kauphöllinni í Osló í dag. Samkvæmt henni framkvæmdi fjármálaeftirlit Noregs reglubundna greiningu á vörnum bankans og birti á dögunum skýrslu byggða á henni. Samkvæmt skýrslunni á bankinn í hættu á að greiða 400 milljónir norskra króna í sekt, breyti það ekki vörnum sínum, en það gildir 5,7 milljörðum íslenskra króna.
Bankinn tiltekur að hann sé ekki grunaður um hvítþvætti, heldur hafi fjármálaeftirlitið gagnrýnt hann fyrir að halda ekki uppi nægum vörnum til þess að framfylgja þarlendum lögum sem koma eigi í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Enn fremur tekur DNB fram að hann muni ganga að skilyrðum sem tilgreind eru í skýrslu fjármálaeftirlitsins. Hins vegar greinir bankinn ekki nánar frá því hver þessi skilyrði eru, en samkvæmt honum er ekki hægt að tilkynna innihald skýrslu fjármálaeftirlitsins frekar, þar sem rannsókn hennar á bankanum sé ekki lokið.
Rannsókn vegna Samherjamálsins
Formleg rannsókn stendur nú yfir hjá ríkissaksóknara Noregs vegna viðskiptahátta DNB við Samherja. Samkvæmt umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera var hluti þeirra peninga sem Samherji færði inn á reikninga DNB skráður í skattaskjólinu Marshall-eyjum.
DNB lokaði á reikninga Samherja á árinu 2018 vegna gruns um að þeir væru notaðir til að stunda peningaþvætti. Í kjölfarið hóf bankinn innanhúsrannsókn á málinu og tilkynnti hann niðurstöður hennar svo til norsku efnahagsbrotalögreglunnar, Økokrim, í lok nóvembermánaðar í fyrra.
Kjarninn greindi svo frá því í haust að æðsti yfirmaður Økokrim hafði lýst sig vanhæfan til þess að fjalla um málið vegna fyrri starfa sinna í lögmennsku. Málið var í kjölfarið fært frá efnahagsbrotalögreglunni til ríkissaksóknara, sem hefur það nú á sínu borði.