Réttarhöld yfir sjö mönnum sem hafa verið í haldi namibískra yfirvalda vegna spillingar og mútugreiðslna í tengslum við úthlutun aflaheimilda til félaga tengdum Samherja í Namibíu hefjast 22. apríl á næsta ári. Mennirnir sjö, þar af tveir fyrrverandi ráðherrar landsins, verða áfram í haldi yfirvalda þangað til.
Þetta varð ljóst við fyrirtöku í málinu í Windhoek höfuðborg Namibíu í morgun, samkvæmt fréttum namibískra fjölmiðla, meðal annarra Informanté.
Einnig kom þar fram af hálfu ákæruvaldsins að þrír menn til viðbótar verði ákærðir í málinu. Þeirra á meðal er lögfræðingur að nafni Maren de Klerk, sem fór til Suður-Afríku í upphafi árs og hefur verið þar síðan. Saksóknari sagðist búast við því að tveir menn yrðu handteknir á næstu dögum.
Flestir mannanna hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í nóvember í fyrra, en sjömenningarnir eru Bernhard Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi fyrrverandi stjórnandi ríkisútgerðarinnar Fischor og Tamson Hatuikulipi frændi hans, sem einnig er tengdasonur Bernhard Esau, og þeir Ricardo Gustavo, Pius Mwatelulo og Mike Nghipunya. Flestir þeirra hafa þegar verið ákærðir.
Samkvæmt frétt á namibíska fréttavefnum NBC hefur ríkissaksóknari Namibíu nú lokið rannsókn sinni á málinu, en fyrir daginn í dag höfðu namibískir fréttamiðlar sagt frá því að ef ákæruvaldið myndi óska eftir frekari fresti til þess að ljúka rannsókninni gæti farið svo að mönnunum yrði sleppt úr haldi, en lögmenn þeirra hafa sagt málarekstur yfirvalda hafa dregist úr hófi fram.
Update: The Fishcor corruption case has been transferred to the High Court, where the six men currently charged and additional accused have to make a first pretrial appearance on 22 April.
— The Namibian (@TheNamibian) December 14, 2020
Video: Werner Menges pic.twitter.com/V8Dk7dx8sj
Fischor og Fishrot
Síðan Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í nóvember í fyrra eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og fleiri miðla um skjöl sem Wikileaks fékk í hendur frá uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni, hefur namibíska lögreglan verið með málið til rannsóknar.
Flestir sakborninganna voru handteknir í þeim sama mánuði og síðan þá hafa yfirvöld undirbyggt málareksturinn gegn þeim – og öðrum.
Um tvö aðskilin mál að ræða, sem gerður er skýr greinarmunur á í fréttaflutningi Namibian í dag. Annars vegar er um að ræða Fishcor-málið og hins vegar Fishrot-málið, að sögn blaðsins.
Málið sem nú hefur verið ákveðið að taka til meðferðar í apríl er Fishcor-málið, en það lýtur að misnotkun stjórnmálamanna og annarra ákærðra á aðstöðu sinni, til þess að hagnast sjálfir á úthlutun aflaheimilda með því að þiggja mútur.
Í Fishrot-málinu er hins vegar sérstaklega til umfjöllunar sá vafasami milliríkjasamningur sem gerður var á milli Namibíu og Angóla um hrossamakrílkvóta. Ríkissaksóknari Namibíu segir samninginn svikamyllu sem sett hafi verið upp með virkri þátttöku Samherja. Í því máli hefur ríkissaksóknari Namibíu sagt ætlan sína að ákæra félög tengd Samherja og stjórnendur þeirra.
Samkvæmt fréttaskoti The Namibian á Twitter óskaði saksóknari eftir fresti til 26. mars til þess að leggja fram endanlegar ákærur í Fishrot-málinu, en fékk frest til 5. febrúar.
Viðbót kl. 14:05: Í nýrri frétt Informanté kemur reyndar fram að saksóknari hafi í morgun sagt að ríkissaksóknarinn hafi í hyggju að slá málunum tveimur saman í eitt.