Stjórnvöld í Ísrael eru þau fyrstu í heiminum til að ákveða að gefa út „græn vegabréf“ til þeirra borgara landsins sem farið hafa í bólusetningu gegn COVID-19. Vegabréfið greiðir handhöfum leið fram hjá ýmsum hindrunum sem settar hafa verið á í faraldrinum. Þannig þurfa þeir sem það fá ekki að fara í einangrun eða sóttkví eftir að hafa orðið útsettir fyrir veirunni vegna nálægðar við sýkta manneskju og einnig munu þeir geta sótt veitingahús og menningarviðburði, að því er heilbrigðisráðherra landsins hefur sagt.
Fólk mun fá græna vegabréfið tveimur vikum eftir að það hefur fengið síðari sprautu bóluefnisins.
Samkvæmt því sem heilbrigðisráðherrann Yuli Edelstein segir munu þeir sem fá vegabréfið ekki þurfa að fara í sýnatöku áður en lagt er í ferðalag til útlanda.
Allt frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa fjölmargir aðilar jafnt úr heilbrigðisstétt sem ferðaþjónustunni, bent á að bólusetning sé leiðin út úr þrengingunum. Bóluefni hafa svo verið þróuð á mettíma og bólusetning er þegar hafin í nokkrum löndum, m.a. meðal ákveðinna hópa í Bretlandi. Á næstu viku – jafnvel dögum – hefst svo bólusetning í mörgum til viðbótar. Enn er beðið leyfis Lyfjastofnunar Evrópu svo að heimilt verði að bólusetja íbúa innan EES-landa, þar á meðal Íslands.
En hvaða þýðingu mun bólusetning hafa fyrir utan hið augljósa – að verja þann sem hana fær fyrir sjúkdómnum COVID-19 sem kórónuveiran veldur?
Tveir óvissuþættir varðandi bóluefnin eru helsta hindrunin í vegi fyrir því að heilbrigðisyfirvöld víða, sem og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, eru hikandi við að gefa án fyrirvara, út sérstök vegabréf eða skírteini til þeirra sem fá bólusetningu gegn COVID-19 á næstu mánuðum. Í fyrsta lagi er ekki vitað hversu lengi vörn bóluefnanna gegn sjúkdómnum virkar og í öðru lagi er enn ekki vitað hvort að sá sem hefur verið bólusettur og myndað mótefni getur borið veiruna með sér og sýkt aðra – þó að hann sjálfur fái engin einkenni COVID-19.
Fleiri óvissuþættir eru vissulega til staðar. Einn þeirra er tregða fólks til að láta bólusetja sig yfir höfuð. Þó að Íslendingar séu mjög jákvæðir í garð bólusetningar gegn COVID-19 er sömu sögu ekki að segja í mörgum öðrum ríkjum. Þetta spilar svo aftur saman með þeirri óvissu sem fylgir því hvort að bólusettur einstaklingur getur enn smitað aðra.
Stjórnvöld víðast hvar í heiminum sem og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin vilja ekki gera bólusetningu gegn COVID-19 að skyldu. Sú ákvörðun á að hvíla hjá einstaklingnum. Engu að síður er hvatt til þess að sem flestir láti bólusetja sig svo að hið umtalaða hjarðónæmi samfélags, hóps eða heilu þjóðanna náist.
Það sem hins vegar gæti gerst og er þegar farið að gerast er að fyrirtæki, t.d. flugfélög, krefjist þess að viðskiptavinir framvísi vottorði til marks um að þeir séu annað hvort bólusettir eða hafi fengið COVID-19 og séu því ónæmir fyrir veirunni.
Bólusetningaskírteini ekki ný af nálinni
Í almennri umræðu eru vottorð þessi oft kölluð bólusetningarvegabréf. Vottun á ákveðnum bólusetningum er vissulega ekki ný af nálinni. Til að ferðast til ýmissa landa, m.a. Afríkuríkja þar sem hitabeltissjúkdómar eru landlægir, þurfa ferðalangar að geta framvísað bólusetningarskírteinum. En þegar verið er að bólusetja við þekktum sjúkdómum á borð við gulusótt og taugaveiki er vitað hversu lengi vörnin endist. Og þar stendur einn stærsti hnífurinn í kúnni þegar bóluefni gegn COVID-19 er annars vegar eins og að undan var rakið.
Engu að síður hafa fréttir af komu bóluefnis vakið væntingar og vonir um að fleira muni fylgja en aðeins vörn gegn veirunni. Að bólusetningu muni fylgja þau forréttindi – sem áður þóttu sjálfsögð – að geta ferðast um heiminn og verið meðal fólks hvar og hvenær sem er.
Atvinnulífið er auðvitað mjög áfram um að slíkt gagn hljótist einnig af bólusetningunum. Að fólk fari einmitt að ferðast, að hjól ferðaþjónustunnar um víða veröld fari að snúast af krafti á ný.
Þó að almenn bólusetning sé ekki enn hafin í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, eru tvö smáforrit sem votta eiga ónæmi fólks gegn kórónuveirunni, komin til sögunnar. Prófanir á öðru eru þegar hafnar og hitt er handan við hornið. Nokkur bandarísk flugfélög hafa þegar ákveðið að prófa þau, bæði í innanlandsflugi og millilandaflugi.
Annað þeirra kallast CommonPass og hefur verið prófað frá því í október hjá flugfélögunum United Airlines og Cathay Pacific milli New York og London, Singapúr og Hong Kong. Í einföldu máli þá birtist strikamerki í snjalltæki fólks sem fyrirtæki geta skannað til að fá staðfestingu á að viðkomandi hafi fengið bólusetningu.
Forgangsmál
Alþjóðasamband flugfélaga, IATA, er einnig að þróa app í sama tilgangi. Í appinu verður hægt að nálgast ýmsar heilsufarsupplýsingar, s.s. um sýnatökur og bólusetningar.
„Helsta forgangsmálið er að fá fólk til að ferðast með öruggum hætti á ný,“ sagði í tilkynningu frá IATA vegna málsins. Aðalatriðið er að ferðalangar geti framvísað vottorði um ónæmi svo að þeir þurfi ekki að fara í sóttkví eða einangrun í þeim löndum sem þeir ferðast til eða eftir að hafa heimsótt ákveðin lönd.
En ýmsir sérfræðingar hafa bent á að bólusetningarvegabréf séu ekki „ónæmis vegabréf, þ.e. vegna þess að ekki er vitað hversu lengi vörn bóluefnisins gegn veirunni varir, sé aðeins hægt að votta ónæmi fólks til skamms tíma.
Aftur til framtíðar
Flestir þrá þá veröld sem var að geta farið um frjálsir ferða sinna án grímu og án þess að þurfa að halda tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. Bólusetningarvottorð myndu ekki aðeins gagnast flugfélögum heldur líka veitingastöðum, börum og í hvers konar menningarstarfsemi. En þá þarf vissan að vera fyrir hendi. Vissan um að sá sem framvísar slíku vottorði sé ónæmur og einnig að hann geti ekki smitað aðra. Fari fyrirtæki og þjónustuaðilar þá leið að krefjast vottorðs um bólusetningu vakna svo einnig siðferðislegar spurningar: Á að skipta fólki í hópa eftir því hvort það hefur fengið bólusetningu eða ekki? Á að veita þeim sem fá slíka bólusetningu, hafa t.d. aðgang að bóluefni, ákveðin forréttindi umfram aðra?
Nadhim Zahawi, yfirmaður bólusetninga hjá breskum stjórnvöldum, segir að mögulega muni barir, veitingahús og þeir sem fyrir menningarstarfsemi standa, byrja að biðja viðskiptavini um sönnun þess að þeir hafi verið bólusettir gegn COVID-19. Hins vegar hafa bresk stjórnvöld ekki uppi neinar áætlanir á þessum tímapunkti um að gefa út sérstök bólusetningarvegabréf.
Alan Joyce, forstjóri ástralska flugfélagsins Qantas Airways segist eiga von á því að félagið muni biðja flugfarþega um að sýna fram á bólusetningu í millilandaflugi. Þá hafa áströlsk stjórnvöld sagt að svo geti farið að þau biðji ferðamenn um að sýna vottorð um bólusetningu við komuna til landsins.
Vottorð heilbrigðisyfirvalda í ýmsum löndum sem gefin eru fólki sem fengið hefur COVID-19 og þar með myndað mótefni gegn veirunni, eru í dag ekki tekin gild alþjóðlega og meira að segja veita þau handhöfum oft engar sérstakar undanþágur frá takmörkunum á samkomum og fjarlægðarmörkum svo dæmi séu tekin.
Í grein í nýlegu hefti vísindablaðsins Lancet er talað fyrir ónæmisvottorðum eða vegabréfum og ríkisstjórnir heimsins hvattar til þess að taka upp einhvers konar kerfi á alþjóðavísu hvað þetta varðar.
„Einu rökin fyrir því að beita ríkisvaldi sem takmarka frelsi fólks er þegar hætta er á að öðrum stafi hætta af því,“ segir Julian Savulescu, yfirmaður siðfræðistofnunar Oxford-háskóla, sem er einn af höfundum greinarinnar. „Þegar hættan af því að fólk ógni heilsu annarra ætti ekki að hefta frelsi þess.“
Nicole Hassoun, prófessor í heimspeki við Binghamton-háskóla í New York-ríki vill fara varlegar og segir: „Það eru ekki nægar sannanir enn fyrir hendi til að fullyrða að ónæmisvegabréf séu góð hugmynd.“
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur varað við útgáfu ónæmisvottorða. Það gerði hún þegar í apríl og hefur ítrekað þau skilaboð síðustu vikur þó að nokkurs misræmis gæti í málflutningi starfsmanna hennar. Frá því í haust hefur WHO verið að fylgjast með og taka þátt í þróun rafrænna bóluefnisvottorða í Eistlandi. Verkefnisstjóri hjá WHO sagði nýverið að stofnunin væri að fylgjast náið með tækniþróun á þessu sviði og hvernig nýta mætti rafræn heilbrigðisvottorð meðal aðildarríkja stofnunarinnar. Á sama tíma ítrekaði svo annar starfsmaður að WHO mælti ekki með útgáfu ónæmisvottorða. Að varúðarorð sem gefin voru út í apríl í þessum efnum stæðu enn.