Þreifingar hafa síðustu daga verið í gangi á milli bæði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar annars vegar og lyfjarisans Pfizer hins vegar, um að fá hingað til lands meira magn bóluefna frá fyrirtækinu undir því yfirskini að gera hér rannsókn.
Rannsóknin fælist í því að bólusetja stóran hluta landsmanna hratt og örugglega og leyfa Pfizer að fylgjast með því hvernig hjarðónæmi myndi nást hjá Íslendingum. Bóluefnið sem Pfizer og BioNTech þróuðu er það eina sem er komið með skilyrt markaðsleyfi hér á landi.
Umræðan um þessi mál hefur á köflum verið ruglandi og virðist sem sóttvarnalæknirinn og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafi verið, sitt í hvoru lagi, að setja sig í samband við Pfizer vegna þessara mála.
Á forsíðu Morgunblaðsins á aðfangadag sagði frá því að Kári Stefánsson hefði verið í sambandi við Pfizer um að fá hingað til lands 400.000 skammta, eða nægilegt magn bóluefnis til þess að bólusetja um 60 prósent landsmanna. Um væri að ræða verkefni sem fulltrúar Pfizer væru spenntir fyrir.
Sóttvarnalæknir sagði ekki rétt að hugmyndin hefði komið frá Kára
Sóttvarnalæknir sendi frá sér tilkynningu í kjölfar þessarar fréttar og annarra svipaðra, þar sem sagði frá því að „hugmyndin að því að Ísland gæti orðið rannsóknarsetur fyrir fasa IV rannsókn þar sem að stærsti hluti þjóðarinnar yrði bólusettur á stuttum tíma“ hefði verið „viðruð í tölvupósti sóttvarnalæknis til fulltrúa Pfizer“ þann 15. desember.
„Innihald póstsins hefur síðan verið til skoðunar innan fyrirtækisins og verið leitað eftir frekari upplýsingum hjá sóttvarnalækni. Það er því ekki rétt sem haft var eftir Kára Stefánssyni m.a. í Morgunblaðinu í dag að hugmyndin að þessu rannsóknarfyrirkomulagi hefði komið frá forstjóra fyrirtækisins. Kári Stefánsson hefur á hinn bóginn verið ötull með samskiptum sínum við forsvarsmenn Pfizer við að ljá málinu brautargengi,“ sagði í tilkynningu sóttvarnalæknis, en einnig sagði að ójóst væri hvort af þessari rannsókn yrði. Svara frá Pfizer yrði beðið.
„Ekki í neinu stríði“ og fara saman til fundar við Pfizer
Í dag segir Kári Stefánsson frá því á Facebook að hann og og Þórólfur Guðnason séu „ekki í neinu stríði“ og segir það hafa verið mistök hjá sér að hafa ekki haft Þórólf með þegar hann setti sig í samband við Pfizer.
Hann segist hafa sér það „til varnar“ að því sambandi sem hann hefur náð við Pfizer hafi verið komið á í gegnum samstarfsmenn hans í Bandaríkjunum. „[É]g hafði litla stjórn á ferðinni,“ skrifar Kári.
„[N]æsta fund með Pfizer tökum við Þórólfur saman og ef hann gengur vel dreg ég mig í hlé og skil þetta alfarið í höndunum á honum enda hæfir það hans hlutverki í íslensku heilbrigðiskerfi. Þórólfur hefur stýrt okkur ótrúlega vel og ljúfmannlega í gegnum tíu mánaða faraldur og er manna best til þess fallinn að beita bólusetningum til þess að koma okkur endanlega út úr honum,“ skrifar Kári í færslu sinni í dag.
Á sama tíma hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir rætt við fjölmiðla um möguleikann á þessari rannsókn og segir við RÚV að hugmyndin sem verið að reyna að heilla Pfizer með sé að „setja þetta upp eins og nokkurs konar fasa fjögur rannsókn þar sem hægt er að fylgjast mjög vel með hvað gerist með faraldurinn, með veiruna, þegar við náum að bólusetja stóran hluta af þjóðinni.“
Einstakar aðstæður á Íslandi
Haft er eftir Þórólfi að hann eigi von á því að samtalinu við Pfizer verði framhaldið í byrjun næsta árs og að Ísland bjóði upp á mjög góðar og einstakar aðstæður fyrir rannsóknir af þessu tagi.
„Við erum að fylgjast með nýjum sýkingum. Við erum að raðgreina allar veirur sem að greinast. Við erum að fylgjast með aukaverkunum, fylgjast með sjúkdómnum og við erum að fylgjast með landamærunum. Þannig að við höfum alla burði og það eru fáir sem hafa svona mikla burði til þess að geta fylgst með þessu á svona vísindalega og staðlaðan máta hvað gerist með veiruna í framhaldinu,“ sagði Þórólfur við RÚV.