Ísrael hefur náð að bólusetja rúm ellefu prósent af þjóðinni gegn COVID-19, en milljónasti ísraelski ríkisborgarinn var bólusettur þar í landi í morgun. Ekki er vitað um aðra þjóð þar sem hlutfall bólusettra er jafnhátt.
Vefmiðillinn Jerusalem Post greindi frá milljónustu bólusetningunni þar í landi fyrr í dag, en samkvæmt henni leggur forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, mikla áherslu á að sem flestir landsmenn láti bólusetja sig, hvort sem þeir séu gyðingar eða arabar.
Samkvæmt nýjustu gögnum frá Our World in Data komast fá lönd nálægt því hafa bólusett jafnmarga gegn veirunni og Ísrael. Einungis Kína og Bandaríkin hafa bólusett fleiri af eigin ríkisborgurum, en þar hafa samtals 7,3 milljónir fengið bóluefnið. Einnig hefur ein milljón Breta verið bólusett gegn veirunni.
Munurinn á Ísrael og öðrum löndum er þó skýrari ef tekið er mið af íbúafjölda hvers lands. Á meðan 11 prósent Ísraela hafa fengið bóluefni gegn veirunni er hlutfallið aðeins í tæpum tveimur prósentum í Bretlandi og undir einu prósenti í Bandaríkjunum og Kína. Samsvarandi hlutfall hér á landi nær rúmu prósenti.
Þrátt fyrir að hlutfall bólusettra sé hátt í Ísrael gengur erfiðlega að draga úr útbreiðslu veirunnar, 14 daga nýgengi þar er nú rúmlega tífalt hærra en hérlendis. Samkvæmt Jerusalem Post mun áhrifa bólusetningarinnar ekki gæta fyrr en eftir fimm vikur, svo líklegt er að strangari sóttvarnaraðgerðir verði kynntar í Ísrael á næstu dögum.