Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, kennt við Bretland, hefur nú dreift sér víða um Evrópu. Það er talið meira smitandi en fyrri afbrigði og því hafa mörg ríki gripið til sérstakra aðgerða til að halda því úti. En það er annað afbrigði sem einnig er á sveimi og vekur viðlíka áhyggjur, jafnvel meiri. Það er kallað „suðurafríska afbrigðið“ og meðal þeirra sem óttast það meira en hið breska er aðstoðarlandlæknir Noregs. Afbrigðið greindist í fyrsta skipti í Noregi á mánudag.
„Við vitum ekki hvort að hið breska afbrigði er komið til Noregs en það suðurafríska veldur okkur enn meiri áhyggjum,“ segir aðstoðarlandlæknirinn Espen Rostrup Nakstad í samtali við Aftenposten. Hann segir það geta orðið erfitt að halda útbreiðslunni í skefjum ef ný og meira smitandi afbrigði veirunnar „ná fótfestu“ í landinu. Þá gæti þurft að endurskoða sóttvarnaaðgerðir enn einu sinni. „Við höfum ástæðu til að halda að suðurafríska afbrigðið hafi breyst mikið og sé þess vegna meira smitandi.“
Veirur stökkbreytast stöðugt. Oftast eru stökkbreytingarnar svo litlar að þær skipta engu máli. En veiran er sjálfselsk, þ.e.a.s. hún breytist sér í hag – og þegar stökkbreyting á sér stað sem veldur aukinni smithættu þá sér hún sér leik á borði að geta smitað fleiri líkama.
Hið suðurafríska afbrigði hefur einnig greinst í Svíþjóð og Finnlandi. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni er ekki vitað til þess að það hafi greinst hér á landi. „Þessu afbrigði hefur verið lýst eins og breska afbrigðinu.,“ segir í svari sóttvarnalæknis við fyrirspurn Kjarnans. „Við vitum að tilfelli þess sem kennt er við Bretland hefur komið upp hér á landi, eins og við höfum greint frá.“
Nokkur atriði varðandi suðurafríska kórónuveiruafbrigðið hafa vakið eftirtekt. Á henni finnast fleiri breytingar í gaddapróteininu en í því breska sem þykir gefa til kynna að hún er meira smitandi.
Afbrigðið varð það útbreiddasta í Suður-Afríku í nóvember og hefur nú haft betur en önnur þar í landi ef svo má að orði komast.
Þá benda rannsóknir sem gerðar hafa verið í Suður-Afríku til þess að meira veirumagn af þessu afbrigði safnist upp í öndunarveginum þeirra sem sýkjast. Einnig á eftir að svara því til fulls hvaða áhrif bólusetning fólks hefur á sýkingu af völdum þessa suðurafríska afbrigðis.
Hér er fréttaskýring Politico um hið suðurafríska afbrigði kórónuveirunnar.
Hér má lesa samantekt BBC um afbrigðið.