„Allir sem ég þekki eru að reyna að draga nafnið upp úr mér. En ég hef ekki einu sinni sagt konunni minni hvert það er,“ sagði Scott Piergrossi, framkvæmdastjóri hjá Brand Institude, sem tók þátt í því að finna nöfn á nokkur þeirra bóluefna gegn COVID-19 sem nú eru þegar farin að líta dagsins ljós. Þetta var haft eftir honum áður en bóluefni Pfizer-BioNtech fékk markaðsleyfi í Bandaríkjunum og Evrópu, fyrst allra slíkra.
Yfirleitt er tekinn góður tími í að finna nafn á lyf og bóluefni. Jafnvel tvö ár. Enda hefur hingað til tekið áratug eða lengur að þróa þau, prófa og koma í gegnum nálarauga lyfjastofnana.
En allt er með öðru sniði í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Bóluefni hafa verið þróuð á mettíma, á um tíu mánuðum, og því urðu þeir sem hafa það hlutverk að finna nafn líka að haska sér.
Vörumerkjasérfræðingar segja að þegar komi að nöfnum á lyfjum og bóluefnum þurfi fyrst og fremst að hafa tvennt í huga: Að nafnið kveiki jákvæðar tilfinningar en sé þó ekki það flippað að það því verði hafnað af íhaldssömum stofnunum.
Bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer og þýska líftæknifyrirtækið BioNtech tóku saman höndum um þróun bóluefnis gegn COVID-19 og hófust klínískar prófanir á því þegar í apríl. Á þróunarstiginu var það nefnt BNT162b2 en bókstafirnir fremst í heitinu vísa til BioNtech. Þegar ljóst var að efnið væri að virka eins og stefnt var að og sótt var um markaðsleyfi hafði það fengið nafnið Comirnaty.
Þetta er samsett orð
Rýnum aðeins í þetta nafn.
Í því er blandað saman ýmsu; nafni sjúkdóms, nafni aðferðarinnar sem notuð var við þróunina auk þess sem í því leynist einnig tilvísun í fyrir hverja það er og hverju það á að skila.
Piergrossi er loks tilbúinn að leysa frá skjóðunni og segir nafnið, sem hann tók þátt í að finna, vísa til eftirfarandi hluta: COVID-19, mRNA, samfélags (community) og ónæmis (immunity).
Bóluefnið Comirnaty byggir á svokallaðri mRNA-tækni en slík efni innihalda hluta af erfðaefni kórónuveirunnar SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Þetta er í fyrsta skipti sem þessari tækni er beitt við þróun bóluefna.
Þar sem tæknin er svo nýstárleg þótti tilefni til að koma nafni hennar inn í nafn lokaafurðarinnar: Bóluefnisins sjálfs.
Frátóku nöfn sem innihéldu Wuhan
„Þetta var krefjandi verkefni miðað við önnur því það eru svo miklar vonir bundnar við þessa vöru í efnahagslegu, heilsufarslegu og tilfinningalegu tilliti,“ segir Piergrossi.
Bóluefni Moderna, sem einnig byggir á mRNA-tækninni, hlaut náð fyrir augum Evrópsku lyfjastofnunarinnar á miðvikudag. Ýmsar vangaveltur hafa verið um hvaða nafn bóluefnið myndi fá en hefð er fyrir því að upplýsa um slíkt eftir að markaðsleyfi fæst.
Í haust óskaði fyrirtækið eftir að skrá tvö vörumerki: Spykevax og Spikevax. „Spike“ vísar til gaddapróteinanna sem einkenna kórónuveiruna og „vax“ til bólusetningar/bóluefnis (vaccination, vaccine). Áður hafði fyrirtækið tryggt sér vörumerkin Mnravax, Mvax og Covidvax. Þegar í janúar á síðasta ári, skömmu eftir að faraldurinn kom upp í Kína hafði fyrirtækið skráð nöfn sem vísuðu til borgarinnar þar sem veiran er talin eiga upptök sín, Wuhan. Þau nöfn, m.a. Wuhan Vax, hafa öll verið slegin út af borðinu.