Í gær greindust 11 einstaklingar innanlands með COVID-19. Þar af voru sex í sóttkví. Þetta eru heldur fleiri smit en greinst hafa síðustu daga, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins. Þá greindust tíu á landamærunum.
Til þessa hafa 22 greinst með breskt afbrigði veirunnar og þrír innanlands. Allir tengjast þeir þeim sem greindust á landmærunum. „Ef við skoðum aðeins innanlandssmitin þá hafa þau verið tiltölulega fá undanfarna daga en heldur fleiri í gær og ég vona að það sé ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið,“ sagði Þórólfur. „En ég held að við getum sagt að nokkur aukning hefur orðið í greiningu á landmærunum og nýgengi þar hærra en innanlands. Það endurspeglar faraldurinn erlendis þar sem hann hefur verið í miklum vexti.“
Breska afbrigðið er nú að greinast í æ fleiri Evrópulöndum og fleiri vísbendingar að koma fram um að það sé meira smitandi en önnur afbrigði, sagði Þórólfur. Hann sagði að hins vegar væru engin merki um að það sé að valda alvarlegri sjúkdómi. Enn hefur ekki verið rannsakað til hlítar hvort að bóluefni sem þegar eru komin á markað verja fólk gegn hinu breska afbrigði veirunnar. Það mun að sögn Þórólfs vonandi skýrast sem fyrst.
Þórólfur fór yfir dreifingaráætlanir bóluefnanna hingað til lands. Tvö bóluefni hafa nú fengið markaðsleyfi hér á landi. Fyrir marslok er von á bóluefni fyrir þrjátíu þúsund einstaklinga til viðbótar við þá fimm þúsund sem bólusettir voru í lok desember. Þriðja bóluefnið er nú til umfjöllunar hjá Lyfjastofnun Evrópu. Mögulega koma næstu skammtar af bóluefni og þá frá Moderna, hingað til lands í næstu viku.
„Þar sem tiltölulega lítið magn af bóluefni er til skiptanna hef ég neyðst til að endurskoða forgangsröðun,“ sagði Þórólfur. Áætlað er að klára að bólusetja framlínustarfsmen með næstu skömmtum og halda áfram að bólusetja eldri en 70 ára en alls telja þeir 35 þúsund. Í framhaldi verður fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma bólusett en ólíklegt er að sá þáttur bólusetningarinnar hefjist fyrr en eftir marsmánuð.
„Þannig munum við vinna okkur í gegnum allan hópinn sem boðið er í bólusetningu, alla landsmenn eldri en sextán ára, en hversu langan tíma það tekur er ekki hægt að segja á þessari stundu,“ sagði Þórólfur.
Nýjar tillögur í undirbúningi
Sóttvarnalæknir undirbýr nú nýjar tillögur um aðgerðir til ráðherra. Þær munu skýrast samhliða þróun faraldursins næstu daga.
„Breska afbrigði veirunnar er í mikilli uppsveiflu víða,“ ítrekaði Þórólfur. „Við þurfum að forðast eins og við getum að það gerist hér.“
Hann segir koma til greina að þeir sem greinist með breska afbrigðið verði sendir í farsóttahús. „Við verðum að gera allt sem við getum til að hafa eftirlitið eins virkt og gott og mögulegt er.“
Þórólfur hefur áður lagt til að allir sem koma til landsins verði skyldaðir í sýnatöku en fái ekki val um að fara í tveggja sóttkví. Hann mun aftur ræða þetta við stjórnvöld enda telur hann allt verða að gera til að tryggja að faraldurinn fari ekki í sambærilega uppsveiflu og er í löndunum í kringum okkur.
„Við þurfum að undirbúa okkur fyrir að halda aðgerðum áfram og þær verða að vera í samræmi við faraldurinn hér innanlands, þar til við höfum náð hjarðónæmi. Það er óvissa áfram í þessu. En við getum hins vegar glaðst yfir því að faraldurinn er í lágmarki hér miðað við önnur lönd. Heilbrigðiskerfið er ekki á heljarþröm hér eins og víða. Við verðum að kappkosta að halda þetta út þar til við fáum bóluefni sem verður til þess að við getum slakað á.“