Fjárfestahópurinn Strengur, sem náði ekki að taka yfir Skeljung með yfirtökutilboði sem rann út á mánudaginn, hefur nú aukið eignarhlut sinn í félaginu. Eignarhlutur Strengs í Skeljungi nemur nú rúmlega 45 prósentum.
Kjarninn hefur áður greint frá yfirtökutilboði Strengs, en þar bauðst hópurinn til að kaupa alla útistandandi hluti félagsins á 8,3 krónum á hlut. Einungis rúmlega tvö prósent hluthafa þáðu tilboðið, en með því stækkaði eignarhlutur hópsins úr 38 prósentum í 41,6 prósent, eftir að leiðrétt hefur verið fyrir eigin hlutum.
Til viðbótar við kaup á hlutum þeirra sem þáðu yfirtökutilboðið bætti Strengur við sig rúmlega 90 milljón hlutum í gær, samkvæmt tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu. Þar af keypti hópurinn 40 milljón hluti á 8,75 krónum á hlut og rúmlega 50 milljón hluti á 9,67 krónum á hlut. Miðað við kaupgengi Skeljungs í dag, sem er 9,91 krónur á hlut, voru 50 milljón hlutir því keyptir á 2 prósenta afslætti og 40 milljón hlutir keyptir á 12 prósenta afslætti.
Stærstu eigendur Skeljungs að Strengi undanskildum eru lífeyrissjóðirnir Gildi, Stapi, Birta, Festa, Lífsverk og Frjálsi, en saman eiga þeir um 37 prósent atkvæða í félaginu. Enginn lífeyrissjóðanna þáði yfirtökutilboðið, en samkvæmt talsmönnum flestra þeirra var meginástæða höfnunarinnar sú að tilboðsverðið hafi verið of lágt, auk þess sem margir þeirra sögðust einnig vera mótfallnir yfirlýstum áformum Strengs um að skrá félagið af hlutabréfamarkaði í Kauphöllinni.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Strengs, virtist þó túlka höfnun á kauptilboði fjárfestahópsins sem merki um að aðrir eigendur deildu sýn fjárfestahópsins á framtíðarrekstur félagsins. Framkvæmdastjórar lífeyrissjóðanna þvertaka þó fyrir það og segja kauptilboðið einfaldlega hafa verið of lágt, samkvæmt frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.