Fjárfestahópurinn Strengur hefur nú náð meira en 50 prósentum atkvæða alls hlutafjár í Skeljungi, en eignarhlutur hans í félaginu nam 38 prósentum fyrir viku síðan. Lífeyrissjóðirnir Gildi, Frjálsi, Festa, Stapi og Lífsverk staðfesta allir að þeir hafi ekki selt hlut sinn í Skeljungi til Strengs, auk þess sem talsmenn Birtu segja að hlutur sjóðsins í félaginu hafi ekki minnkað um meira en tvö prósent.
Kjarninn hefur fjallað um áform Strengs um yfirtöku á Skeljungi, en hópurinn bauðst til þess að kaupa alla útistandandi hluti félagsins á 8,3 krónum á hlut. Einungis rúmlega tvö prósent hluthafa þáðu það þegar tilboðsfresturinn rann út á mánudaginn, en þá var markaðsvirði Skeljungs í Kauphöllinni nokkuð hærra. Með því stækkaði eignarhlutur hópsins í félaginu úr 38 prósentum í 41,6 prósent, eftir að leiðrétt var fyrir eigin hlutum.
Í gær tilkynnti svo Fjármálaeftirlitið að Strengur hafði bætt enn meira við eignarhlut sinn með kaupum á 90 milljón hlutum, þar sem 40 milljónir þeirra voru keyptar á 12 prósenta afslætti og 50 milljónir á 2 prósenta afslætti, miðað við gengi félagsins í gær.
Seinna í gærkvöldi bárust svo tvær tilkynningar til viðbótar frá Fjármálaeftirlitinu, þar sem Strengur var fyrst kominn með 49,59 prósent atkvæðarétta í félaginu eftir kaup á 84,7 milljón hlutum í félaginu, og svo þar sem hlutfall atkvæðarétta var komið í 50,06 prósent eftir kaup á 9 milljón hlutum til viðbótar. Því hefur Strengur bætt við sig rúmum 11 prósentum í Skeljungi á einni viku.
Lífeyrissjóðirnir Gildi, Frjálsi, Festa, Birta, Lífsverk og Stapi eru stærstu eigendur Skeljungs, að Strengi undanskildum, og eiga um 37 prósent í félaginu. Í samtali við Kjarnann á mánudaginn staðfestu sjóðirnir að þeir höfðu hafnað yfirtökutilboði Strengs, en flestir þeirra sögðu ástæðuna vera þá að tilboðsverðið hafi verið of lágt, auk þess sem þeir lögðust gegn yfirlýstum áformum hópsins um að skrá Skeljung af markaði.
Allir sjóðirnir nema Birta staðfestu svo í dag að þeir tóku ekki þátt í neinum af kaupum Strengs á hlutafé í Skeljungi þessa vikuna. Birta vildi ekki veita nákvæmar upplýsingar um viðskipti við Streng á síðustu dögum en bætti þó við að eignarhlutur sjóðsins í félaginu, sem nam tæp sjö prósentum fyrir, sé enn yfir fimm prósentum.