Félagsstofnun stúdenta (FS) býður nú í fyrsta sinn fólki sem er ekki í námi að sækja um herbergi til leigu. Vegna áhrifa COVID-19 eru biðlistar eftir herbergjum með sameiginlegum eldhúsum og dvalarrýmum sem FS býður til leigu í nokkrum af sínum stúdentagörðum styttri en venjulega, segir Rebekka Sigurðarsdóttir, upplýsingafulltrúi FS, í samtali við Kjarnann.
Það skýrist af því að erlendir nemar eru ekki að skila sér til landsins í þeim mæli sem reiknað var með og nemendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins eru sumir hverjir að segja upp leigusamningum sínum og sjá, kannski eðlilega, ekki tilgang í því að dvelja í Reykjavík á meðan háskólanámið fer fram á netinu.
Það er nýlunda hjá FS að einstaklingar sem ekki eru í námi geti sótt um herbergi, en þeir fara aftast í forgangsröðina þegar kemur að úthlutun. Enginn sem er ekki í námi er kominn með herbergi, en nokkrir hafa þegar haft samband við FS og sýnt áhuga, segir Rebekka. Um er að ræða herbergi með sameiginlegum eldhús- og dvalarrýmum, á Gamla Garði, Mýrargarði og Oddagörðum.
Einnig er framhaldsskóla- og iðnnemum gefinn kostur á því að sækja um herbergi núna og gæti það nýst þeim sem eru á lokaári sínu og hyggja á háskólanám og búsetu í húsnæði á vegum FS í haust, til þess að komast fyrr að.
Fólk bíður með að þiggja íbúðir og sér til hvernig faraldurinn þróast
„Þetta COVID-ástand hefur auðvitað haft áhrif á okkur eins og alla aðra, þannig að í augnablikinu eru færri á biðlistum hjá okkur en alla jafna, í eðlilegu árferði,“ segir Rebekka. Ennþá eru þó töluverðir biðlistar, en þeir segja ekki nema hálfa söguna. Rebekka segir að þrátt fyrir að hundruð séu á biðlistum séu fleiri en venjulega sem ekki þiggi úthlutanir sínar og vilji sjá til hvernig málin þróast varðandi faraldurinn og staðkennsluna.
Í upphafi árs 2020 tók FS stærsta stúdentagarð á landinu í notkun, „kortér í COVID“, eins og Rebekka lýsir. Þá opnaði Mýrargarður, nýr stúdentagarður á háskólasvæðinu sem hýsir tæplega 300 manns og létti það nokkuð á biðlistum FS.
Nú er staðan sú að töluvert minni eftirspurn er eftir herbergjum á vegum FS en venjulegt er og ákveðið var að rýmka úthlutunarreglurnar í því ljósi. Forgangur við úthlutun herbergja er nú eftirfarandi:
- A. Núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun
- B. Erlendir stúdentar sem njóta forgangs (Tiltekinn fjöldi styrkþega á vegum menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands eða Fulbrightstofnunar. Njóta forgangs við úthlutun tvíbýla og herbergja á Gamla Garði.)
- C. Nemar í HÍ – lögheimili utan höfuðborgarsvæðis
- D. Nemar í HÍ – lögheimili innan höfuðborgarsvæðis
- E. Nemar í öðrum háskóla
- EE. Nemar í framhalds- eða iðnskóla
- E3. Ekki í námi
Eins og sjá má ganga núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun fyrir þegar kemur að úthlutun herbergja á stúdentagörðum FS, þá erlendir nemar sem njóta forgangs og svo aðrir háskólanemar.
Aftast í röðinni eru nemar í framhalds- eða iðnskólum og þeir sem ekki eru í námi. Þannig verður röðin einnig þegar kemur að úthlutun fyrir komandi haust.