Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að gefa alla umframskammta af bóluefni gegn COVID-19 sem þau hafa skuldbundið sig til að kaupa til lágtekjuþjóða. Bæði kemur til greina að auka framlög til COVAX-verkefnisins og að gefa bóluefnið til fátækra þjóða í Evrópu sem eru utan ESB og EES.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um hvað verði gert við umframskammtana af bóluefninu. Fram kom í minnisblaði sem heilbrigðisráðuneytið sendi velferðarnefnd alþingis síðasta föstudag að íslensk stjórnvöld væru búin að tryggja sér bóluefnisskammta fyrir 660 þúsund manns, en Vísir greindi frá þessu fyrr í vikunni.
Af þessum bóluefnum eru skammtar fyrir 64 þúsund manns frá Moderna, 114 þúsund manns frá AstraZeneca og 235 þúsund manns frá Janssen. Einnig hafa stjórnvöld tryggt bóluefni frá Pfizer og BioNTech fyrir allt að 250 þúsund manns, eftir samning Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendurna í síðustu viku um kaup á fleiri skömmtum.
Ísland muni gefa alla umframskammta
Í öllum samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við framleiðendur bóluefnanna er ákvæði sem heimilar að þeir skammtar sem þjóðir nýta ekki sjálfar séu gefnir til annarra þjóða. Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu ætlar Ísland að nýta sér þá heimild og gefa alla sína umframskammta til lágtekjuþjóða.
Ekki liggi fyrir hvert þessir skammtar verða gefnir, en ráðuneytið segir að verið sé að setja á fót sameiginlegan vettvang þjóða í Evrópusamstarfinu til að ákveða það. Þar komi m.a. til greina samstarf við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina í gegnum COVAX samkomulagið sem ætlað er að tryggja lágtekjuþjóðum bóluefni og einnig að bóluefni verði gefin fátækum þjóðum í Evrópu sem standa utan Evrópusamstarfsins.
Umframskammtar fyrir 340-440 þúsund manns
Samkvæmt upplýsingum frá covid.is er gert ráð fyrir að hér á landi verði 75 prósent Íslendinga sem fæddir eru árið 2005 og fyrr bólusettir, en það eru rétt rúmlega 220 þúsund manns. Því gæti svo farið að Ísland sitji uppi með umframskammta af bóluefni fyrir 440 þúsund manns.
Þó gæti þessi tala verið nokkuð lægri, þar sem Evrópusambandið má kjósa að kaupa ekki 100 milljónir skammta af þeim 600 milljónum sem samningur þess við Pfizer og BioNTech kveður á um. Þannig gæti verið að Ísland fái bara skammta fyrir 229 þúsund manns frá Pfizer í stað skammta fyrir 250 þúsund manns.
Einnig gæti verið að fleiri Íslendingar vilji láta bólusetja sig eftir að hjarðónæmi verður náð. Samkvæmt Hagstofu nemur fjöldi Íslendinga fæddur árið 2005 og eftir um 295 þúsund manns. Því gæti verið að Ísland sitji uppi með umframskammta af bóluefni fyrir 344 þúsund manns í staðinn.
0,4 til 1,6 milljarðar króna í verkefnið
Nokkur verðmunur er á verði bóluefnanna, líkt og vefsíðan The Motley Fool gerir grein fyrir. Þar er bóluefnið frá AstraZeneca ódýrast, en talið er að það kosti sex til átta Bandaríkjadali að bólusetja hvern einstakling, sem jafngildir 770 til 1.030 krónum á núverandi gengi. Þar á eftir kemur bóluefni Janssen, sem muni líklega kosta um 10 Bandaríkjadali fyrir hvern bólusettan einstakling, eða um 1.300 kr.
Bóluefni Moderna er þó öllu dýrari, en síðan gerir ráð fyrir að það kosti á milli 25 til 37 Bandaríkjadala, eða 3.200 til 4.800 krónur, að bólusetja hvern einstakling. Bóluefni Pfizer og BioNTech er aftur á móti dýrast allra, en það kostar 39 Bandaríkjadali, eða rúmar 5 þúsund krónur, að bólusetja hvern einstakling.
Samkvæmt þessum tölum mun Ísland því verja 400 milljón króna til 1,6 milljörðum króna í útgáfu bóluefnis til lágtekjuþjóða.
50 þúsund bólusettir í gegnum COVAX
Íslensk stjórnvöld tilkynntu í september að þau myndu taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem tryggir lágtekjuþjóðum um allan heim aðgang að bóluefni. Samkvæmt tilkynningunni hygðust Noregur og Ísland leggja leggja fram 967 milljónir króna til kaupa á tveimur milljónum skömmtum af bóluefni. Út frá þessu má ætla að löndin muni kaupa bóluefnið frá AstraZeneca, þar sem það er eina bóluefnið sem hægt er að kaupa á þessu verði, samkvæmt The Motley Fool. Framlag Íslands í þessu verkefni er nóg til að standa straum af 100 þúsund skömmtum, en það væri nóg til að bólusetja 50 þúsund manns.