Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins (EASA) ætlar að gefa grænt ljós á flug Boeing 737 MAX-véla í næstu viku. Þetta kom fram í máli Patrick Ky, stjórnanda stofnunarinnar, á rafrænum blaðamannafundi í morgun.
AFP-fréttastofan segir frá og hefur eftir Ky að fjórum helstu kröfum EASA hafi verið mætt af hálfu Boeing. MAX-vélar fyrirtækisins hafa ekki fengið að fljúga um evrópska lofthelgi í heila 22 mánuði, eða frá því í mars árið 2019.
Floti MAX-véla var kyrrsettur á heimsvísu eftir tvö flugslys með skömmu millibili í lok árs 2018 og upphafi árs 2019 sem urðu í heildina 346 manns að bana. Slysin voru rakin til galla í hugbúnaði vélanna, svokölluðu MCAS-kerfi, sem á að sporna við ofrisi. Galli í búnaðinum leiddi til þess að nef vélarinnar þvingaðist niður á við.
Fyrsta farþegaflug MAX-vélar eftir kyrrsetningu flotans fór í loftið 9. desember síðastliðinn í Brasilíu. Síðan hefur heimurinn smám saman verið að taka MAX-vélarnar aftur í notkun. Nú hyllir undir að hægt verði að fara að fljúga á þeim um evrópska lofthelgi.
Icelandair hefur gert ráð fyrir því að MAX-vélar fyrirtækisins verði komnar í notkun í vor, en nú virðist liggja ljóst fyrir að félagið gæti byrjað að fljúga á þeim strax í næstu viku, ef vélarnar eru klárar til flugs. 737 MAX-vélarnar í flota Icelandair eru sex talsins sem stendur.
Flugfélagið náði í sumar samkomulagi við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar vélanna og breytta afhendingaráætlun þeirra MAX-véla sem félagið hafði pantað en ekki enn fengið afhentar.
Icelandair samdi við Boeing um að fá að falla frá kaupum á fjórum MAX-vélum, en mun fá sex slíkar afhentar á tímabilinu frá öðrum ársfjórðungi 2021 fram til fyrsta ársfjórðungs 2022.