„Þó að það gangi vel þessa dagana er ekki ástæða til þess að mínu mati að slaka frekar á innanlandstakmörkunum á þessari stundu. Við viljum ekki taka áhættuna á því að fá hér frekari útbreiðslu eins og sakir standa.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði að nú yrði farið hægar í tilslakanir en áður og Alma Möller landlæknir sagði að reynslan hefði kennt okkur að það þurfi lítið til að faraldurinn gjósi upp aftur líkt og gerðist hér innanlands í þriðju bylgjunni.
Í gær greindist einn einstaklingur með COVID-19 innanlands og var hann í sóttkví. Fjórir greindust á landamærunum. Færri sýni hafa verið tekin síðustu daga en oft áður og var hvatt til þess á upplýsingafundinum að fólk sem hefði minnstu einkenni færi í sýnatöku. „Það er algjörlega þungamiðjan í því sem við erum að gera,“ sagði sóttvarnalæknir.
Síðustu upplýsingar úr raðgreiningum eru þær að 43 hafa greinst með breska afbrigði veirunnar hér á landi, þar af sjö innanlands. Allir tengjast þeir fólki sem greindist með afbrigðið á landamærunum. Hlutfall smita á landamærum er núna í kringum eitt prósent, sem er mun hærra en í haust og endurspeglar stöðu faraldursins erlendis.
Ekki fara til útlanda að óþörfu
„Staðan er almennt séð nokkuð góð,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, „en ég minni á það að einstaklingar sem eru að greinast á landamærunum eru að veikjast og sumir að leggjast inn á sjúkrahús.“
Hann hvetur fólk til að vera ekki að fara erlendis að óþörfu. Hann minnir á að þó að fáir liggi á Landspítala vegna COVID-19 er ástandið á spítalanum erfitt vegna annarra sjúkdóma.
Rúmlega 4.500 manns hafa fengið báðar sprautur bóluefnis og eru því fullbólusettir. Í þessari viku er von á 1.200 skömmtum af bóluefni Moderna til landsins og um 2.000 skömmtum af bóluefni Pfizer. Með þeim verður haldið áfram að bólusetja eldra fólk og framlínustarfsmenn.
Nýju afbrigðin valda áhyggjum
Landlæknir sagði að vissulega værum við í góðri stöðu innanlands, sérstaklega ef litið væri til nágrannalandananna þar sem smitum væri að fjölga, innlögnum á gjörgæsludeildir sömuleiðis sem og dauðsföllum. Að hluta til skýrist það ástand af nýjum og meira smitandi afbrigðum veirunnar.
Evrópska sóttvarnastofnunin fjallaði um þrjú afbrigði veirunnar sem menn hafa áhyggjur af í skýrslu sem kom út á föstudag. Alma fór yfir hvert afbrigði fyrir sig á fundinum.
Breska afbrigðið komst á flug í suðurhluta Bretlands í desember þrátt fyrir þær miklu takmarkanir sem þar voru í gangi. Það hefur nú fundist í sextíu öðrum löndum, þar af í 23 Evrópuríkjum. Útbreiðslan er t.d. hröð í Danmörku, á Írlandi og í Hollandi.
Alma sagði að afbrigðið væri meira smitandi en eldri afbrigði en að ekki hefði verið sýnt fram á að það sé hættulegra og valdi meiri veikindum. Hins vegar hafi fjöldi dauðsfalla í Bretlandi aldrei verið meiri. Í fyrstu var talið að það smitaði meira börn en önnur afbrigði en það hefur ekki verið staðfest. Talið er að bóluefnin virki gegn því en mjög vel er fylgst með smitum hjá fólki sem fengið hefur bólusetningu.
Suðurafríska afbrigðið greindist fyrst í október og hefur breiðst hratt út um sunnanverða Afríku. Það er líkt og hið breska meira smitandi en ekki er vitað hvort að það veldur alvarlegri veikindum. Það hefur nú greinst í tíu Evrópulöndum og á öllum hinum Norðurlöndunum. Alma sagði að menn hefðu áhyggjur af því að fólk sem fengið hefði COVID-19 gæti smitast aftur af hinu suðurafríska afbrigði. Einnig væru vísbendingar um að bóluefnin kunni að virka verr á það en önnur.
Þriðja afbrigðið greindist í Brasilíu og hefur borist með ferðalöngum þaðan til að minnsta kosti tveggja landa. Það er nú talið útbreitt á Amazon-svæðum Brasilíu og hefur valdið álagi á heilbrigðiskerfið þar. Frekari upplýsingar um afbrigðið liggja ekki enn fyrir.
Evrópska sóttvarnastofnin hvetur ríki til að vera á varðbergi og auka hlutfall raðgreininga. Alma sagði á að hér á landi væri hvert einasta smit raðgreint og að Íslenskri erfðagreiningu yrði seint fullþakkað fyrir það.
Alma minnti á að aðgerðir á landamærum væru m.a. til þess að lágmarka hættuna á því að smit af þessum afbrigðum berist hingað til lands. „Því verðum við að halda vöku okkar og fylgja reglum vel, hér innanlands líka.“ Alma sagði svo að „snemmgreining“ væri áfram hornsteinn í baráttunni við veiruna. „Gleymum því ekki.“
Getur læðst aftan að okkur
Þórólfur var spurður af hverju ekki væri tímabært að slaka á aðgerðum innanlands, ef ekki nú þá hvenær? Hann sagði reynsluna hafa sýnt okkur að þegar slakað er á aðgerðum aukist hættan ná bakslagi og að það væri augljósasta ástæðan fyrir því að yfirvöld væru hrædd við að slaka of mikið á. „Þetta getur læðst aftan að okkur og getur orðið erfitt að ná niður“.
Hann sagði ljóst að margir væru „dálítið óþolinmóðir“ en að það væri aðeins ein og hálf vika síðan tilslakanir voru gerðar síðast. Líða þurfi um 1-2 vikur til að sjá afleiðingar af því. „Ég held að það sé ekki nein ástæða til að flýta sér núna. Við verðum að sjá hvað gerist. Valið snýst ekki um að slaka á núna eða einhvern tímann í haust eða sumar – við getum klárlega skoðað hvað gerist núna næstu dagar og vikur og þetta er alltaf í sífelldu mati – hvort við eigum að slaka á.“
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði vísbendingar um að fólk væri að slaka meira á en tilefni væri til. Af samfélagsmiðlum mætti sjá að fólk væri mikið á ferðinni og að meiri hópamyndanir væru að eiga sér stað en „við hefðum kosið að sjá“. Hann sagði fólk fylgjast með smittölunum og fari svo að leggja út frá því sjálft hvað það þýði fyrir sig.
Hann hvatti fólk til að hugsa: „Hvar varst þú um helgina? Er það eitthvað sem við erum stolt af?“ Rögnvaldur minnti á að hættan væri ekki liðin hjá. Allir yrðu að halda áfram að gera sitt til að hefta útbreiðsluna.