Alls hafa 48 greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar hér á landi, þar af átta manns innanlands sem allir tengjast fólki sem greindist á landamærunum. Breska afbrigðið er meira smitandi en flest önnur. Það er þó ekki talið valda alvarlegri veikindum. Útbreiðsla þess skýrir mikla fjölgun smita í flestum nágrannalöndum okkar og hertar aðgerðir sem þar hefur verið gripið til.
Þórólfur Guðnason sóttvarnaæknir segir að yfirvöld „séu á tánum“ vegna þessa afbrigðis veirunnar og að til mikils sé að vinna að koma í veg fyrir að það breiðist út í samfélaginu. „Við teljum fulla þörf á því að fara mjög varlega svo að við fáum ekki holskeflu yfir okkur eins og nágrannaþjóðirnar eru að sjá núna.“
Með aðgerðum okkar á landamærum, sem felast í því að fólk þarf að fara í tvær sýnatökur með nokkurra daga millibili, hefur verið sýnt fram á mikilvægi slíkra aðgerða í baráttunni við faraldurinn að mati Þórólfs. Flestar þjóðir hafa farið aðrar leiðir og eru nú í þeirri stöðu að þurfa að loka landamærum sínum nánast að fullu. „Aðgerðir okkar á landamærunum hafa veri árangursríkar til að halda afbrigðum veirunnar frá landinu,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag og benti á, máli sínu til stuðnings, að frá því að tvöföld sýnataka hófst við landamærin 19. ágúst hafi um 450 mismunandi afbrigði veirunnar greinst þar en á sama tíma einungis þrettán innanlands.
Þar sem okkar aðgerðir hafi reynst vel telur Þórólfur ekki tilefni til að loka landamærum Íslands frekar – að minnsta kosti ekki að svo stöddu.
Þó að enn séu að greinast örfá smit innanlands dag frá degi telur sóttvarnalæknir ekki tímabært að slaka frekar á aðgerðum. Hins vegar segir hann vel koma til greina, ef fram heldur sem horfir, að gera það fyrir 17. febrúar þegar núgildandi aðgerðir falla úr gildi. Hann ítrekar að mjög varlega þurfi að fara í allar tilslakanir. Það hafi reynsla síðustu mánaða sýnt okkur.
Af þeim níutíu manns sem greinst hafa hér á landi í janúar hafa flestir verið með bláa afbrigði veirunnar, afbrigði sem kom hingað til lands í ágúst með frönskum ferðamönnum. Það afbrigði „réði ríkjum“ alla þriðju bylgjuna, eins og Þórólfur orðar það, og hafa tiltölulega fá önnur afbrigði verið að greinast innanlands síðan.