„Hér er ekki farið rétt með staðreyndir og þetta er mistúlkun á umsögnum og óskum fyrirtækisins,“ segir Landsvirkjun í umsögn sinni um frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs. Vísar fyrirtækið í þessu sambandi í greinargerð frumvarpsins þar sem fram komi að Landsvirkjun hafi ásamt náttúruverndarsamtökum óskað eftir því að rekstur orkuvinnslu yrði staðsettur á jaðarsvæði innan garðsins og lyti sérstökum reglum ásamt því að vera undir stjórn hálendisþjóðgarðs.
Landsvirkjun segist í fyrri umsögnum um málið hafa lagt áherslu á að rekstur fyrirtækisins verði utan hálendisþjóðgarðs, m.a. í því skyni að tryggja framþróun orkuvinnslu. „Ljóst er að staðsetning rekstrarsvæða orkuvinnslu innan sértækra jaðarsvæða þjóðgarðs, líkt og kemur fram í frumvarpi, muni ekki ná þeim markmiðum.“
Fyrirtækið bendir á að „jaðarsvæði“ sé nýtt hugtak sem hvorki sé skilgreint í náttúruverndarlögum né skipulagslöggjöf. Þá sé ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu í lagatexta né greinargerð frumvarpsins. „Í greinargerð með frumvarpinu er látið í það skína að Landsvirkjun hafi átt hugmyndina að þessu fyrirkomulagi en því mótmælir fyrirtækið harðlega.“
Í umsögn sinni gagnrýnir Landsvirkjun ennfremur að samkvæmt frumvarpinu verði ráðherra, umdæmisráðum og stjórn hálendisþjóðgarðs veitt „óskilgreint vald“ sem geti „valdið mikilli óvissu og haft veruleg hamlandi áhrif“ á rekstur orkuvinnslu. Er lögð á það rík áhersla að þau svæði sem eru mikilvæg fyrir starfsemi fyrirtækisins verði alfarið utan marka hálendisþjóðgarðsins og svæða tengdum honum og þar með utan valdsviðs garðsins. Fyrirtækið leggst „eindregið gegn því“ að settar verði auknar kvaðir á starfsemi þess á svæðinu og leggur til að greinar frumvarpsins sem fjalla um svokölluð jaðarsvæði verði felldar á brott.
Þá gerir fyrirtækið athugasemd við að heildarstærð þjóðgarðsins skuli ekki vera skilgreind í lagatextanum og varar við því að „einum ráðherra sé fengið það reglugerðarvald sem fjallað er um í 2. gr. frumvarpsins að ákveða stærð þjóðgarðsins og rekstrarsvæða orkuvinnslu“. Leggur Landsvirkjun því til að stærð garðsins verði skilgreind í frumvarpinu og að aðkoma Alþingis og hagsmunaaðila að ákvörðun um stærð garðsins sem og stækkanir verði tryggð í texta frumvarpsins.
Landsvirkjun gagnrýnir einnig að vikið sé frá niðurstöðu þverpólitískrar nefndar um hálendisþjóðgarð sem skilaði lokaskýrslu í desember 2019. Í henni kom fram að stofnun þjóðgarðs á hálendinu ætti ekki að koma í veg fyrir að fjallað yrði um nýjar orkutengdar framkvæmdir innan hans í samræmi við áætlanir Alþingis um orkunýtingu og flutning raforku. Í frumvarpinu nú er hins vegar ný orkuvinnsla á svæðinu takmörkuð við virkjunarkosti í þriðja áfanga rammaáætlunar.
Heimila megi nýjar virkjanir
Landsvirkjun telur að virða beri niðurstöðu nefndarinnar og að ekki sé rétt að takmarka heimildir verkefnisstjórnar rammaáætlunar við þriðja áfanga hennar. „Fyrirtækið ítrekar að breyta þarf greininni þannig að heimila megi nýjar virkjanir í samræmi við verndar- og orkunýtingaráætlun Alþingis á hverjum tíma. Jafnframt sé verkefnisstjórn heimilt að leggja mat á nýja virkjunarkosti innan hálendisþjóðgarðs, að undanskildum svæðum sem hafa verið afmörkuð vegna verndar tiltekinnar náttúru- eða menningarminja og að sú vernd banni orkuvinnslu sérstaklega.“ Bendir fyrirtækið á vindorkunýtingu eða aukna orkuvinnslu á núverandi rekstrarsvæðum sem dæmi um framtíðarmöguleika „sem gætu vel samræmst markmiðum hálendisþjóðgarðs“.
Í lokaorðum umsagnarinnar leggur Landsvirkjun „ríka áherslu á að rekstur fyrirtækisins sé alfarið utan þjóðgarðs og að engar auknar kvaðir verði settar á reksturinn þrátt fyrir nálægð við þjóðgarðinn“. Að því sögðu segist Landsvirkjun sjá „spennandi tækifæri“ í samstarfi við hálendisþjóðgarð.