Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóri Evrópu, fékk í dag stjórnarmyndunarumboð frá forseta Ítalíu, Sergio Mattarella. Þetta kemur fram í frétt frá Financial Times fyrr í dag.
Samkvæmt fréttinni mun hann nú freista þess að setja saman ríkisstjórn í landinu svo að ekki þurfi að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Draghi, sem er óflokksbundinn, var tilnefndur af Mattarella eftir að stjórnarslit urðu í ríkisstjórn sem Giuseppe Conte leiddi fyrr í vikunni.
Ljóst er að Draghi mun þurfa stuðning frá einhverjum af stóru popúlistaflokkum landsins, Norðurbandalaginu, Bræðrum Ítalíu eða Fimmstjörnuhreyfingunni, til að ríkisstjórn hans haldi velli. Norðurbandalagið og Bræður Ítalíu eru hægripopúlistaflokkar sem er þekktur fyrir andúð sína á innflytjendum, en Fimmstjörnuhreyfingin er ekki mikill stuðningsmaður Evrópusambandsins.
Vito Crimi, sitjandi leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar, tilkynnti í gær að flokkurinn myndi ekki samþykkja tækniræðisstjórn með Draghi í fararbroddi. Nokkur ágreiningur virðist þó vera um málið innan flokksins samkvæmt nokkrum þingmönnum hans og gæti hann mögulega klofnað í tvennt vegna þess.
Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins, hefur verið jákvæðari í garð hugsanlegrar ríkisstjórnar Draghi. Samkvæmt ítalska fréttamiðlinum La Repubblica sagðist hann hafa stungið upp á að hlustað væri á hvað Draghi hefði upp á að bjóða. Giorgia Meloni, formaður Bræðra Ítalíu segir hins vegar hennar flokk aldrei munu styðja hann.
Í ræðu sem Draghi flutti fyrr í dag kallaði hann eftir samstöðu þvert á stjórnmálaflokka svo að ríkisstjórnin gæti unnið úr stóru verkefnunum sem biðu hennar. „Að sigrast á faraldrinum, ljúka bólusetningarherferðinni, að leita borgurunum svör og landinu viðspyrnu, þetta eru áskoranirnar,“ bætti hann við.