Martha Imalwa, ríkissaksóknari Namibíu hefur lagt fram ákæru á hendur namibískum félögum sem tengjast Samherja og stjórnendum félaganna, sem eru íslenskir ríkisborgarar.
Samkvæmt því sem fram kemur í ákæruskjali sem lagt hefur verið fram af hálfu saksóknarans og Kjarninn hefur séð eru Íslendingarnir þrír sem sæta ákæru persónulega þeir Ingvar Júlíusson, Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason.
Ingvar er fjármálastjóri Samherja á Kýpur, en þeir Egill Helgi og Aðalsteinn voru framkvæmdastjórar á vegum Samherja í Namibíu. Allir þrír eru þeir í hópi þeirra sex einstaklinga sem greint hefur verið frá að hafi réttarstöðu sakborninga í rannsókn embættis héraðssaksóknara hér á landi.
Samherji segir ákærur ekki koma á óvart
Í yfirlýsingu á vef Samherja í dag segir að ákæra á hendur fyrirtækjunum leiði sjálfkrafa til þess, samkvæmt namibískum lögum, að stjórnendur þeirra sæti einnig persónulega ákæru.
Auk Íslendinganna þriggja og fimm félaga með tengsl við Samherja beinist ákæra namibískra yfirvalda að sakborningum sem flestir verið hafa í varðhaldi frá því skömmu eftir að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í lok árs 2019.
Þeirra á meðal eru tveir fyrrverandi ráðherrar, Bernhardt Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Sjávarútvegsfyrirtækið segir í yfirlýsingu sinni að ákvörðun ríkissaksóknara komi ekki á óvart í ljósi þeirra „ásakana sem saksóknarar í Namibíu hafa áður sett fram og byggja meira og minna allar á staðhæfingum Jóhannesar Stefánssonar sem stýrði útgerðinni í Namibíu en var sagt upp störfum sumarið 2016.“
Ákæran er alls í fjórtán liðum, en félögin sem tengjast Samherja og stjórnendur þeirra eru meðal annars sakaðir um fjársvik, peningaþvætti og mútubrot.
Ákæru verði „varist af fullum krafti“
Á vef Samherja er fullyrt að ásakanir sem settar hafi verið fram á hendur umræddum fyrirtækjum og einstaklingum á þeirra vegum eigi „ekki við rök að styðjast nú frekar en fyrr.“
„Framhald þessa máls verður á næstu mánuðum. Ef ákæra verður gefin út á hendur áðurnefndum fyrirtækjum gefst Samherja þá fyrst kostur á að koma fram vörnum sínum en slíkri ákæru verður varist af fullum krafti,“ segir í yfirlýsingu Samherja.
Samkvæmt því sem fram kemur í ákæruskjali saksóknarans hefjast málaferlin fyrir dómstóli í Windhoek 22. apríl.
Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögn og inngangi fréttarinnar hefur verið breytt til þess að endurspegla að ákærur hafa verið lagðar fram af hálfu ríkissaksóknara Namibíu.