Margar flökkusögur hafa verið á kreiki um rannsóknarverkefni íslenskra yfirvalda við lyfjafyrirtækið Pfizer, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sumar væru skemmtilegar en aðrar ekki. „Hið sanna er“ að „við höfum ekki fengið nein samningsdrög frá Pfizer,“ sagði hann og því lægi ekki fyrir hvort af verkefninu verður, hvenær bóluefni myndi þá koma og hversu mikið. „Ég get fullvissað alla um að réttar upplýsingar verða gefnar um leið og þetta liggur fyrir.“
Fréttamenn höfðu engu að síður mestan áhuga á að fá botn í flökkusögurnar. Þórólfur var meðal annars spurður um þær sögusagnir að Pfizer gerði kröfu um að ef öll íslenska þjóðin yrði bólusett yrðu landamærin opnuð til að sjá hver áhrif hjarðónæmis heillar þjóðar gætu verið. Þórólfur sagðist hvorki geta svarað þessu játandi eða neitandi þar sem samningsdrögin lægju ekki fyrir. Hann sagði að fyrst yrði að sjá drögin til að sjá hvort að þar væru sett fram skilyrði sem væru „ásættanleg fyrir okkur. Ýmsir þættir eru ásættanlegir fyrir okkur en aðrir ekki.“
Yfirvöld hafa, sagði Þórólfur, hingað til komið fram með staðreyndir sem lægju á borðinu en ekki óljós skilaboð. Slíkt verður að sögn Þórólfs áfram viðhaft hvað varðar samningaviðræður við Pfizer. „Við höfum komið með ákveðna tillögu til Pfizer, hún er til meðhöndlunar þar og þeir eru að koma með drög að samningi sem er ekki kominn og þá er ekki meira um það að segja í sjálfu sér.“ Þegar þar að komi „þurfum við að skoða þau samningstilboð sem þar eru, hvort þau séu ásættanleg fyrir okkur og íslenska þjóð – og eftir það verður þetta bara tilkynnt: Já eða nei.“
En færi svo að allt bóluefnið kæmi í þessari viku – hvað myndi gerast? „Ja, þá yrði bara bólusett,“ svaraði Þórólfur að bragði. „Það er bara ekkert flóknara en það.“
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur lengi haft tilbúnar ýmsar sviðsmyndir, eftir því hversu mikið bóluefni mun koma á hverjum tíma. Sagði hann fréttir helgarinnar af því að verið væri að undirbúa bólusetningar í Laugardalnum hafa verið túlkaðar sem skref að fjöldabólusetningu en að þar hefði verið að „skoða sviðsmyndir sem hafa verið í gangi frá upphafi“.
62 greinst með breska afbrigðið
Hvað varðar þróun faraldursins innanlands sagði sóttvarnalæknir að hún væri góð. Einn greindist með veiruna í gær og sá var í sóttkví við greiningu. Síðastliðna viku hafa fimm greinst innanlands og þar af voru þrír í sóttkví. Þeir sem greindust utan sóttkvíar voru allir með gömul smit.
Síðastliðna viku hafa fimmtán greinst jákvæðir á landamærunum í annað hvort fyrstu eða annarri sýnatöku en aðeins helmingur var með virkt smit.
62 hafa greinst með breska afbrigði veirunnar, þar af fjórtán innanlands og voru þeir allir í nánum tengslum við þá sem greindust með afbrigðið á landamærunum. Enginn hefur greinst með suðurafríska afbrigðið eða það brasilíska.