Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ekki átt í neinum samskiptum við framkvæmdaaðila Svartárvirkjunar síðan álit Skipulagsstofnunar á hinni fyrirhuguðu virkjun lá fyrir í lok síðasta árs. Framkvæmdaaðilinn, SSB Orka, hefur ekki óskað eftir því að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði breytt og virkjunin færð inn á það.
Skipulagsstofnun komst að því í áliti sínu að umhverfisáhrif virkjunar Svartár yrðu verulega neikvæð og taldi niðurstöðu umhverfismatsins gefa tilefni til að endurskoða áform um að gera ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.
SSB Orka er í eigu Svartárvirkjunnar ehf. Eigendur þess félags eru Ursus ehf. (í eigu Heiðars Guðjónssonar) sem á 42,9 prósent, Íslandsvirkjun ehf. (í jafnri endanlegri eigu Péturs Bjarnasonar og Auðuns Svafars Guðmundssonar) sem á 50 prósent og Íshóll (í eigu Stefáns Ákasonar) sem á 7,10 prósent. Kjarninn sendi fyrirspurn til Heiðars Guðjónssonar, forsvarsmanns verkefnisins í janúar um framhaldið en engin svör hafa enn borist.
SSB Orka hefur um árabil áformað að reisa 9,8 MW virkjun með því að stífla Svartá í Bárðardal um 500 metra fyrir ofan ármót Svartár og Grjótár. Vatn yrði leitt um aðrennslispípu um 3 kílómetra leið að stöðvarhúsi sem yrði staðsett um 1,5 kílómetrum ofan við ármót Svartár og Skjálfandafljóts. Virkjunin mun leiða til skerðingar á rennsli Svartár á um þriggja kílómetra kafla á milli stíflu og frárennslisskurðar frá stöðvarhúsi.
Áformin hafa vakið hörð viðbrögð og bárust Skipulagsstofnun athugasemdir frá tæplega 80 einstaklingum og samtökum í umhverfismatsferlinu. Að auki hefur málið verið hinu fámenna samfélagi í Bárðardal erfitt og sveitarstjóri og oddviti Þingeyjarsveitar hafa sagt Svartárvirkjun „heita kartöflu“ sem muni kljúfa samfélagið í dalnum, hafi hún ekki þegar gert það.
Álit Skipulagsstofnunar var lagt fram til kynningar á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um miðjan janúar og svo vísað til kynningar í skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins. Sú kynning fór fram á fundi nefndarinnar 21. janúar.
„Sveitarstjórn hefur ekki tekið neina ákvörðun varðandi Svartárvirkjun,“ segir Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, í skriflegu svari til Kjarnans um stöðu málsins nú. „Næstu skref eru framkvæmdaaðilans; að sækja um breytingu á aðalskipulagi og í framhaldinu að óska eftir framkvæmdaleyfi, þá kemur til ákvörðunar sveitarstjórnar.“ Hún segir engin samskipti hafa verið milli sveitarstjórnar og framkvæmdaaðilans frá því að álit Skipulagsstofnunar var gefið út í lok desember í fyrra.