Sóttvarnalæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar telja nær útilokað að af vísindarannsókn Pfizer verði hér á landi. Þeir höfðu báðir vonast til þess að hún yrði að veruleika svo hægt væri að búa til nýja þekkingu, heimsbyggðinni allri til hagsbóta. Lyfjafyrirtækið hefði komist að annarri niðurstöðu og því beri að sýna skilning. Hvorugur þeirra telur vænlegt að „leita á önnur mið“, þ.e. til annarra lyfjafyrirtækja með sambærilega rannsókn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar voru gestir Kastljóss í RÚV í kvöld. Þeir áttu fund með fulltrúum Pfizer í dag og var niðurstaða hans að hingað myndi ekki koma mikið magn bóluefnis til að bólusetja meirihluta þjóðarinnar í rannsóknarskyni. Skýringin er sú að hér eru að greinast mjög fá tilfelli af kórónuveirunni í hverri viku.
„Ef þessi rannsókn, eins og hún var hugsuð, hefði orðið að veruleika, hefðum við fylgt öllum ströngustu skilyrðum um leyfisveitingar,“ sagði Þórólfur. Sú umræða hefur spunnist undanfarið að reynt yrði að „stytta sér leið“ en Þórólfur segir einfaldlega ekki hafa verið tímabært að ræða útfærslu rannsóknarinnar fyrirfram. Um fjórða fasa klínískrar rannsóknar hefði verið að ræða sem fólki hefði verið boðið að taka þátt í til að leita svara við ákveðnum rannsóknarspurningum.
Kári segir að úr því sem komið var, vegna hina fáu smita, hefði mátt rannsaka hér aðra hluti, s.s. hvernig ný afbrigði veirunnar svari bólusetningu. Þekking til slíkrar rannsóknar eru til staðar hér á landi.
Að opna landamærin hefðu engu skipt
Hvort að til greina hafi komið að bólusetja þorra þjóðarinnar og opna svo landamærin sagði Kári að það hefði ekkert gagn gert í rannsóknarskyni einfaldlega vegna þess að fólkið í landinu hefði verið bólusett og engin smit myndu koma upp. Hann sagði að þakka megi Þórólfi fyrir að það var ekki hægt að gera rannsóknina hér á landi og vísaði þar til hins góða árangur sem náðst hefur í baráttunni við veiruna. „Við sitjum uppi núna með mjög lítil tilfelli.“
Kári sagði jafnframt að leiða mætti að því rök að okkar góði árangur þýði að við eigum „pínulítið minni rétt á að fá bóluefni fljótt“ en aðrir.
Þórólfur segist hafa verið undir þessa niðurstöðu búinn þó að hann hefði vissulega viljað að rannsóknin færi af stað. „En menn líta misjafnlega á þetta og mér sýnist þetta vera endirinn á því.“
Eina leiðin er áfram
Á fundinum með Pfizer í dag byrjuðu fundarmenn að ræða um átök um bóluefni um allan heim. Sagði Kári að „logandi stríð“ væru víða um efnin. Hann hafi heyrt að sumum hafi liðið hálf óþægilega að við Íslendingar værum á sama tíma að svindla okkur fram fyrir röðina. En, ef samningar hefðu náðst við Pfizer, hefðum við ekki verið að „að svindla okkur fram fyrir heldur að taka þátt í tilraun sem vonandi nýtist til að finna nýja þekkingu, sem nýtist öllum heiminum.“
En nú er nokkuð ljóst að ekkert verður af vísindarannsókninni. Kári sagði í gamansömum tón að Pfizer-menn hefðu hægt og rólega komist að því að „Þórólfur var búinn að eyðileggja faraldurinn á Íslandi.“
Eina leiðin er áfram, sagði Þórólfur. Góður árangur hefði vissulega náðst en „við vildum gera meira, ná vísindalegri þekkingu með þessari aðferð. Það tókst ekki en við höldum áfram.“
Hann segist bjartsýnn á að meira magn bóluefnis berist frá fleiri framleiðendum næstu mánuði. Kári segist þó enn ekki telja raunhæft að meirihluti landsmanna verði bólusettur „fyrir nýtt ár“.
Megum ekki eyðileggja fyrir öðrum
Kári sagði í „ákefð okkar að ná í bóluefni“ verðum við að setja okkur í alþjóðlegt samhengi og passa að við séum ekki að eyðileggja fyrir öðrum.
Hvað takmarkanir á landamærum varðar er ljóst að þeim verður haldið áfram en Þórólfur benti á að þær væru rýmri hér á landi en víða annars staðar í heiminum í augnablikinu. „Ég veit að það eru allir að bíða eftir tímapunktinum þar sem hægt er að segja að það sé hægt að opna hitt eða þetta. En fyrirsjáanleikinn er lítill.“ Undir það verðum við að búa okkur áfram.
Kári segir að ef samningar hefðu náðst við Pfizer um rannsókn hefði verið hægt að opna landamærin. „Því miður gekk það ekki eftir og við veðrum að halda landamærunum lokuðum að minnsta kosti í einhverja mánuði í viðbót.