Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þó að niðurstaða fundar með forsvarsmönnum lyfjafyrirtækisins Pfizer í dag hafi verið sú að hér verði ekki gerð vísindarannsókn á bóluefni þess sé ekki alveg búið að slá hugmyndina út af borðinu.
„Ég var vissulega að vona að þetta myndi ganga,“ sagði Þórólfur í kvöldfréttum RÚV. Hann hafði talið að hægt væri að afla mikilla gagna með rannsókn hér en að það væru „ekki allir sem sjá það með sömu augum“.
Spurður hvað þyrfti að gerast svo að af rannsókninni yrði sagðist Þórólfur ekki vitað það en að best væri nú að horfa fram á veginn og því góða starfi sem hefur skilað okkur þeim árangri að mjög fá smit eru að greinst hér í hverri viku.
„Við höfum náð frábærum árangri,“ sagði Þórólfur. „Við þurfum að standa okkur áfram í því, halda áfram [skimun] á landamærunum og halda áfram að bólusetja.“
Það hafi frá upphafi verið grundvallar plan yfirvalda en að mögulegur samningur við Pfizer hafi verið hliðarverkefni. „En þetta er ekki neitt meiriháttar áfall,“ sagði hann um niðurstöður fundarins í dag.
„Við bindum miklar vonir við það að við munum fá meira af bóluefni á öðrum og þriðja ársfjórðungi heldur við höfum verið að fá undanfarið. Það eru ný fyrirtæki að koma inn [með bóluefni].“ Talað hefur verið um að meirihluti landsmanna verði ekki bólusettur fyrr en í haust en Þórólfur er ekki svo viss. „Ég held að við munum ná því fyrr.“