Sóttvarnalækni kom verulega á óvart hversu margar flökkusögur af mögulegum rannsóknarsamningi við Pfizer fóru á kreik án þess að nokkuð væri raunverulega í hendi. Hann segir þessar flökkusögur hafi keyrt væntingar fram úr hófi. Niðurstaða Pfizer sé sú að ekki sé séu nægilega mörg smit að greinast hér í landi til að vísindarannsókn myndi skila þekkingu sem gagnast myndi heimsbyggðinni. Endanleg svar frá forsvarsmönnum Pfizer liggur þó ekki enn fyrir og beðið er eftir því.
Hugmyndir að vísindarannsóknum hafi verið lagðar fyrir Pfizer í desember og tveir fundir voru haldnir í þeim mánuði og í byrjun janúar. Stjórnvöldum var haldið upplýstum um þessar óformlegu viðræður allan tímann. Hugmyndin var sú að svara nokkrum spurningum með vísindalegum hætti, um áhrif bólusetninga gegn COVID-19.
Engin samningsdrög hafi verið lögð fram, engar skuldbindingar um samstarf hafi verið gerðar. „Það var aldrei neitt í hendi hvort af [samstarfi] yrði,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Á fundinum fór hann yfir þær gagnrýnisraddir sem fram hefðu komið á hina mögulegu vísindarannsókn þar sem fram hefð komið að landsmenn hefði ekki verið upplýstir um gagnsemi „svona rannsóknar“. Sagði Þórólfur þessa gagnrýni einfaldlega ekki rétta „því að við höfum margoft lýst því yfir hvaða gagnsemi við myndum geta fengið af svona rannsókn, bæði fyrir okkur og aðrar þjóðir“.
Samantekið sagði hann að ein gagnrýnin hafi snúist um hvort það væri siðferðislega rétt að „troðast fram fyrir röðina“ hvað varðar bólusetningar á heimsvísu. Þórólfur svaraði þessi gagnrýni á þann hátt að samkvæmt tillögunum stóð til að „svara knýjandi spurningum á vísindalegan hátt sem munu gagnast fleirum en okkur“. Einnig benti hann á að ef af rannsókninni hefði verið hefðu bóluefni sem við hefðum tryggt okkur með samningum farið annað. „En ef við hefðum troðið okkur framar í röðina án nokkurra skuldbindinga hefði það ekki verið siðferðislega rétt að mínu mati.“
Annar þáttur í gagnrýninni hefði verið sá að efast hefði mátt um vísindalegt gildi rannsóknar á Íslandi fyrir aðrar þjóðir. Því er til að svara, sagði Þórólfur, að vísindalegt gildi rannsóknar á Íslandi er jafn mikilvægt fyrir aðra og rannsóknir á öðrum þjóðum eru fyrir okkur. Benti hann á að lyf og bóluefni væru prófuð víða um heim og við, Íslendingar, nýttum okkur þá þekkingu. „Þannig að þetta passar ekki,“ sagði hann um þessa gagnrýni. Þá sagði hann gagnsemi vísindarannsókna ekki „standa og falla“ með því hvar hún er gerð. Á Íslandi væru betri innviðir til að framkvæma slíka rannsókn en víðast hvar annars staðar í heiminum.
Höfum yfir mörgu að gleðjast
Að auki hafa verið vangaveltur um hvort aflað yrði upplýsts samþykkis Íslendinga í rannsókn sem þessari. Þórólfur sagði „að sjálfsögðu“ hefði svona rannsókn þurft að ganga í gegnum alla eðlilega ferla hjá vísindasiðanefnd og Persónuvernd.
Komið hafa ennfremur fram spurningar um hvort að þeir sem ekki vilja taka þátt í rannsókn á borð við þessa færu þá aftast í röðina í bólusetningu. Þórólfur sagði að „að sjálfsögðu myndi engum verða meinuð bólusetning“ þó að hinn sami vildi ekki taka þátt í vísindarannsókn.
Þórólfur sagði að lokum, í þessari yfirferð sinni um gagnrýni og spurningar sem vaknað hefði úti í samfélaginu vegna hinnar fyrirhuguðu rannsóknar, að hana hefði „á engan hátt verið hægt að túlka sem að verið væri að gera Íslendinga að tilraunadýrum fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki“.
Þó að af rannsókninni verði líklega ekki sá sagði Þórólfur tilefni til að gleðjast yfir þeim árangri sem hér hefði náðst í baráttunni gegn COVID-19. Síðustu viku hefðu aðeins þrír greinst innanlands með veiruna og allir voru þeir í sóttkví. Sautján hefði á sama tímabili greinst á landamærunum, þar af sex með virkt smit.