Írsk stjórnvöld lokuðu nýlega fyrir öll ónauðsynleg ferðalög til og frá landinu. Þessa dagana liggja sektir við því að fara til útlanda án þess að hafa í reynd nauðsyn til þess að fara. Sektin er í dag 500 evrur, tæpar 80 þúsund krónur, en stjórnvöld eru að hugsa um að fjórfalda sektarupphæðina upp í 2.000 evrur.
Þetta kemur fram í umfjöllun írska ríkismiðilsins RTÉ um hertar takmarkanir á ferðalög, en gripið var til þess ráðs að banna ónauðsynleg ferðalög frá Írlandi í janúarmánuði.
Það var gert nokkru eftir að gríðarlega harðar sóttvarnaraðgerðir tóku gildi innanlands í kjölfar mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar – eftir að bent var á að það skyti skökku við að meina fólki að fara í ónauðsynlegar ferðir á milli svæða innanlands á sama tíma og margir kusu að fara frá landinu í sólarlandafrí.
Samkvæmt írsku lögreglunni, Garda, er búið að sekta um 150 manns fyrir að fara frá landinu án nægilegrar ástæðu, en fólk er krafið um skýringar á brottför sinni af landamæravörðum.
Vinnuferð í fjarvinnu
Einn maður sagði landamæravörðum að hann væri á leið til Tenerife vegna nauðsynlegrar vinnuferðar, en við nánari athugun kom í ljós að þessi einstaklingur væri einfaldlega að vinna að heiman fyrir fyrirtæki í Dyflinni þessa dagana.
Manninum var sagt að þetta virtist ekki vera nauðsynlegt ferðalag hjá honum – en hann fór engu að síður af stað, vitandi að mögulega biði hans dágóð sekt við heimkomu.
Framvísa gögnum um læknistíma
Það má ferðast erlendis til þess að sækja sér læknisþjónustu. Samkvæmt frétt RTÉ hafa þónokkrir Írar framvísað gögnum um að þeir séu að fara til læknis eða tannlæknis á Tenerife eða jafnvel í Istanbúl í Tyrklandi.
Þá geta landamæraverðirnir lítið sagt, en þó hefur það vakið athygli þeirra að í sumum flugvélum á leið til sólríkari landa eru jafnvel 30-40 prósent farþeganna að fara rakleiðis til tannlæknis. Eða svo segja þeir.