Ekkert bóluefni sem komið er á markað hefur verið samþykkt fyrir fólk yngra en sextán ára. „Þannig að samkvæmt skilgreiningu munum við ekki ná hjarðónæmi í þýðinu – íslensku samfélagi í þessu tilviki – því börn verða áfram næm fyrir sjúkdómnum,“ sagði Jóhanna Jakobsdóttir líftölfræðingur í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem lesa má í heild sinni hér.
Íslensk stjórnvöld hafa farið þá leið líkt og víðast annars staðar að bólusetja framlínustarfsmenn og viðkvæmustu hópana fyrst. Eftir því sem skömmtunum fjölgar verður farið neðar í aldri en ekki er enn talað um að bólusetja börn.
Miðað við meðaltal smitstuðuls COVID-19 er oft talað um að 60-70 prósent fólks í samfélagi þurfi að vera ónæmt svo hjarðónæmisþröskuldi sé náð.
En hvað gerist í samfélagi þegar þeim áfanga er náð?
„Veiran hverfur ekki. Hún þarf ekki að hverfa frá Íslandi og hún þarf ekki að hverfa úr heiminum,“ segir Jóhanna. Veiran er líkleg til að fylgja mannkyninu til einhverrar framtíðar. Þegar 60-70 prósent íslensku þjóðarinnar hefur fengið bólusetningu og eru því ónæm, eru enn 30-40 prósent það ekki. Það sem hins vegar gerist er að ef sýking brýst út verður hún „vonandi það lítil að við náum að hlaupa fram fyrir hana,“ segir Jóhanna. Auðveldara verður að beita verkfærunum okkar; smitrakningu, sóttkví og einangrun, til að ráða niðurlögum hópsýkinga. Á einum bar, svo dæmi sé tekið, myndu ekki 70 manns smitast á einu kvöldi heldur kannski þrjátíu. „Það eitt og sér, að meira en helminga fjöldann í slíkum hópsýkingum, mun gera alla verkferla og allt okkar kerfi einfaldara í framkvæmd.“
Að sama skapi yrði þá búið að bólusetja þá sem í mestri áhættu eru að fá alvarlega sýkingu og þar með minnka líkur á sjúkrahúsinnlögnum verulega. „Fólk sem er yngra en þrítugt og jafnvel yngra en tvítugt getur orðið alvarlega veikt af COVID þó að það sé ólíklegra til þess en eldra fólk. Þetta er ekki mesti áhættuhópurinn en af því að svo gríðarlega margir eru að smitast á stuttum tíma þá fjölgar líka þeim einstaklingum sem veikjast alvarlega úr þessum hópi. Sem dæmi má nefna að flestir þeirra sem eru á öndunarvélum vegna COVID-19 í Bretlandi eru á aldrinum 50-60 ára. Við getum því alls ekki alveg slakað á þegar við erum búin að bólusetja sextíu ára og eldri. Útbreitt smit í yngri aldurshópum getur haft alvarlegar afleiðingar.“
Jóhanna segist hafa vissar áhyggjur af því að ekkert bóluefni hafi enn verið samþykkt fyrir börn. Börn virðast ólíklegri en fullorðnir til að smitast af veirunni og bera smit. Þau eru ólíklegri til að veikjast og mun ólíklegri til að veikjast alvarlega. En ef börn á aldrinum 0-16 ára, sem er stór hópur, verða ekki bólusett, er sá möguleiki fyrir hendi að faraldur brjótist út á meðal þeirra. Jóhanna útskýrir þetta frekar:
„Það er margt áhugavert við hjarðónæmi. Segjum sem svo að við förum yfir þröskuldinn, bólusetjum yfir sextíu prósent þjóðarinnar – að meirihluti landsmanna sé orðinn ónæmur fyrir sýkingu af völdum veirunnar og samfélagið fari aftur af stað án takmarkana. R-stuðullinn fer niður fyrir 1 en hann er bara meðaltal og getur verið hærri innan ákveðinna hópa, t.d. barna. Faraldurinn getur því viðhaldið sér áfram í þeim hópum sem enn eru næmir. Fái hann að fara um þá óáreittur fara sjaldgæfir atburðir að gerast. Sjaldgæfir alvarlegir atburðir sem við viljum ekki sjá.“
Rannsóknir eru þegar hafnar á virkni og öryggi bóluefnis AstraZeneca fyrir börn og segir Jóhanna það mikið fagnaðarefni.