Í nýjasta minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis kennir ýmissa grasa að vanda enda leggur hann í því til töluverðar takmarkanir á gildandi reglum. Heilbrigðisráðherra hefur gefið út reglugerð í samræmi við tillögur hans og taka hinar nýju reglur um samkomur fólks hér á landi gildi þegar á morgun.
Breytingarnar eru fjölmargar en hér verður sérstaklega fjallað um þær sem snerta líkamsræktarstöðvar en þær, líkt og vínveitingastaðir lúta sérstökum takmörkunum vegna sérstakrar smithættu. Í þriðju bylgju faraldursins komu stór hópsmit upp bæði á krá og í líkamsræktarstöð.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir að gestafjöldi á heilsu- og líkamsræktarstöðvum og sund- og baðstöðvum skuli aldrei vera meiri en 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Sé hámarksfjöldi ekki skráður í starfsleyfi skal miða gestafjölda við helming þess fjölda sem búningsklefar gera ráð fyrir. Börn fædd árið 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda.
Í hverju rými skulu ekki vera fleiri en að hámarki 50 manns. Skulu viðskiptavinir skráðir fyrirfram og skal sótthreinsa tæki og áhöld á milli notenda. Áfram gildir tveggja metra nálægðarregla. Tekið er fram í reglugerðinni að sóttvarnalæknir gefi út nánari leiðbeiningar.
Í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra er nokkuð langur kafli um tillögur Þórólfs að umgengni í líkamsræktarstöðvum. Samkvæmt þeim þurfa gestir t.d. að sótthreinsa hendur að minnsta kosti þrisvar á meðan heimsókn þeirra stendur og ekki dvelja í húsinu lengur en í níutíu mínútur.
Tillögur Þórólfs eru eftirfarandi:
a. Sótthreinsun búnaðar á milli notenda verði á ábyrgð rekstraraðila.
b. Tækjasölum skuli skipt í rými þar sem 50 manna hámark sé í hverju rými. Gæta skuli að 2ja metra nálægðarreglu og þess gætt að loftræsting sé góð.
c. Allir séu fyrirframskráðir í tíma þannig að skráning sé til yfir hver var hvar og hvenær og smitrakning því auðveld.
d. Hver tími sé að hámarki 60 mínútur og viðvera hvers iðkanda í húsi sé því aldrei lengri en 90 mínútur.
e. Við komu í hús sé tryggt að allir sótthreinsi hendur og beri grímur þar til æfing hefst.
f. Eftir æfingu sótthreinsi allir hendur áður en búnaður er sótthreinsaður.
g. Eftir æfingu (þegar hendur hafa verið sótthreinsaðar) sótthreinsi allir þann búnað sem þeir notuðu. Rekstraraðili ber ábyrgð á sótthreinsun búnaðar.
h. Við útgöngu sótthreinsi fólk hendur.
i. Engir tveir tímar liggja saman svo tveir hópar eru ekki að mætast í rýmum hússins, eins og anddyri.
j. Milli hópa séu salerni, vaskar og aðrir snertifletir sótthreinsaðir af starfsmanni.
k. Í sameiginlegum rýmum skal tryggja 2ja metra nálægðarreglu og þegar því verður ekki við komið skal andlitsgríma notuð.