Stór jarðskjálfti fannst vel á suðvesturhorni landsins laust eftir klukkan 10 í morgun. Veðurstofan hefur staðfest að hann var 5,7 að stærð og varð þremur kílómetrum suðvestur af fjallinu Keili á Reykjanesi. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt. Búast má við frekari eftirskjálfum, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.
„Sterk jarðskjálftahrina gengur nú yfir Reykjanes og höfuðborgarsvæðið,“ segir í stuttri tilkynningu almannavarna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur fólk til þess að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar hafa fjölmargir skjálftar orðið á Reykjanesskaga frá því snemma í morgun. Flestir hafa orðið við Fagradalsfjall. Klukkan 10.30 höfðu 25 skjálftar yfir þrír að stærð orðið á hálftíma.
Um jarðskjálftahrinu er að ræða sem hófst samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar á Reykjanesskaga snemma í morgun. Hrinan hefur fundist mjög vel í Reykjavík og víðar og hefur verið nær stöðug frá því rúmlega tíu.
Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfarið.
Síðasta árið hefur jarðskjálftavirkni verið mjög mikil á Reykjanesi og töluvert landris mælst við fellið Þorbjörn.