Vegna jarðskjálftahrinunnar sem nú stendur yfir á Reykjanesi hvetur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fólk til að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta. Fræðsla um viðbrögð þegar jarðskjálfti verður sem og viðbrögð eftir stóra skjálfta er að finna á heimasíðu almannavarna.
Í þeim segir m.a. að rétt sé að leggja orðaröðina KRJÚPA – SKÝLA – HALDA á minnið.
Heimasíða almannavarna hrundi vegna álags í síðustu viku. Að sama skapi hefur vefur Veðurstofunnar hrunið nokkrum sinnum þegar álagið hefur verið hvað mest.
Stærsti jarðskjálftinn í hrinunni hingað til varð klukkan 10.05 á miðvikudag og voru upptökin skammt frá fjallinu Keili. Hann var 5,7 að stærð. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, sagði í kjölfarið að líkur væru á fleiri skjálftum og jafnvel stærri.
Síðustu daga hafa orðið nokkrir stórir skjálftar, nú síðast í nótt, aðfaranótt mánudags, og var hann 4,9 a stærð.
Helstu atriði sem almannavarnir benda fólki á að huga að vegna jarðskjálfta eru eftirfarandi:
Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað. Haltu kyrru fyrir og og haltu þig frá gluggum.
Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta: Ekki hlaupa inn. Reyndu að koma þér frá byggingum sem geta hrunið. Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi.
Húsgögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg.
Lausir munir: Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega. Þungur borðbúnaður og hlutir eru best geymdir í neðri skápum, helst lokuðum.
Kynditæki og ofnar: Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Festið hitaveituofna tryggilega. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið.
Svefnstaðir: Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga. Verðu höfuð þitt og andlit með kodda ef þú vaknar upp við jarðskjálfta.
Útvarp og tilkynningar: Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í útvarpi. Gott er að hafa útvarp með langbylgju ef FM sendar detta út. Þá er hægt að hlusta á útvarp í bílum.
Símar: Farsímar duga skammt ef rafmagn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið eða hleðslubanka til að hlaða farsíma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sérstaklega eftir stóran jarðskjálfta) til að minnka álag á símkerfi í hamförum.
Á jarðskjálftasvæðum er hægt að draga úr afleiðingum jarðskjálfta með jarðskjálftaæfingum til að vera betur viðbúin þegar stór skjálfti verður: KRJÚPA – SKÝLA – HALDA – er orðaröð sem rétt er að leggja á minnið, segir í leiðbeiningum almannavarna. Þetta skal gera úti í horni við burðarvegg eða krjúpa undir borð, skýla höfði og halda sér í.
Almannavarnadeild mælir með því að fólk finni sér staði heima, í vinnunni eða í skólanum þar sem öruggt er að vera ef það verður jarðskjálfti.
Ítarlegri leiðbeiningar má nálgast hér og hér.