„Það er óheiðarlegt af ráðamönnum að halda því fram að stjórnarskrárbreytingar þurfi að gera í víðtækri sátt en láta svo eins og sú sátt eigi einungis við um þá sjálfa og umsvifamikla aðila. Er sátt útgerðarfyrirtækjanna mikilvægari en sátt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar? Hvað með alla þá kjósendur sem veittu tillögum Stjórnlagaráðs brautargengi haustið 2012? Hvað með þá 43.423 borgara sem kröfðust lögfestingar nýju stjórnarskrárinnar 8 árum síðar? Hvað með þann meirihluta landsmanna sem ítrekað hefur lýst stuðningi við nýja stjórnarskrá í skoðanakönnunum?“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögum Stjórnarskrárfélags Íslands um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um breytingar á stjórnarskrá sem nú er til meðferðar þingsins. Katrín mælti fyrir frumvarpinu í byrjun febrúar. Samkvæmt frumvarpinu munu nokkur atriði stjórnarskrárinnar taka breytingum, verði það samþykkt. Þar er um að ræða atriði sem fjalla um forseta Íslands, ríkisstjórnir, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir í náttúru Íslands og íslensk tunga.
Neita að gefa efnislega umsögn um frumvarpið
Stjórnarskrárfélagið berst fyrir því að þær stjórnarskrárbreytingar sem samþykktar voru sem grunnur að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012, verði teknar aftur upp og það ferli verði klárað.
Í umsögn sinni segir félagið að sú víðtæka sátt sem birtist í ofangreindri þjóðaratkvæðagreiðslu sé sú sátt sem skipti máli í breytingaferli stjórnarskrárinnar. „Ósætti meðal stjórnmálaflokka má ekki standa lengur í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji landsmanna nái fram að ganga. Með frumvarpi þessu er lagt til auðlindaákvæði sem engu breytir um það hvernig þjóðin er hlunnfarin við auðlindanýtingu í sjávarútvegi en stjórnarskrárbindur það óréttlæti sem ríkt hefur í áratugi. Óásættanlegt er að gengið skuli með svo afgerandi hætti gegn margstaðfestum vilja meirihluta þjóðarinnar um að arðurinn af sameiginlegum auðlindum renni að meginstofni til í okkar sameiginlegu sjóði en ekki í hendur örfárra útvaldra.“
Í umsögninni, sem skrifuð er af Katrínu Oddsdóttur, formanni Stjórnarskrárfélagsins, segir að formaður og allir þingmenn Vinstri grænna hefðu lýst því yfir í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að þeir teldu að þingmönnum bæri siðferðisleg og pólitísk skylda til að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðar til. „Stjórnarskrárfélagið telur að útskýra þurfi ástæður þess að formaður flokksins gangi svo augljóslega á bak orða sinna og hvetur þingmenn til að standa við yfirlýsingar sínar[...]Umrætt frumvarp gengur þvert gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og er alvarleg aðför að grundvallarstoðum lýðræðis og fullveldi íslensku þjóðarinnar.“
Af þessum sökum sér Stjórnarskrárfélagið ekki ástæðu til að gefa efnislega umsögn um frumvarpið.
Segja tillögur forsætisráðherra mun lakari fyrir hag almennings
Í niðurlagi umsagnarinnar segir þó að því skuli haldið til haga að efnislega séu tillögur forsætisráðherra mun lakari fyrir hag almennings en samsvarandi greinar í frumvarpi Stjórnlagaráðs. „Það frumvarp felur í sér djúpstæða málamiðlun þar sem 25 einstaklingar með ólíkar skoðanir og bakgrunn komu sér einróma saman um nýja stjórnarskrá sem almenningur tók virkan þátt í að móta. Það er stjórnarskrárfrumvarpið sem þjóðin hefur sagt að skuli vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. Fráleitt er að leggja fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga sem hunsar skýran vilja stjórnarskrárgjafans. Sá vilji hefur aðeins styrkst frá því hann kom fyrst fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Ljóst er að traust á Alþingi verður ekki endurreist fyrr en þessi grundvallarstofnun þjóðarinnar virðir vilja stjórnarskrárgjafans í verki.“
Í ljósi þessa krefst Stjórnarskrárfélagið þess að Alþingi lögfesti nýju stjórnarskrána, frumvarp Stjórnlagaráðs. Í fyrrahaust lögðu alls 17 þingmenn Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins fram eigið frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, en með þeim breytingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði á því 2013. Það frumvarp bíður nú afgreiðslu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Til vara fer Stjórnarskrárfélagið fram á að einungis verði mælt fyrir nýju breytingarákvæði við gildandi stjórnarskrá sem tryggja myndi stöðu þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Sömu 17 þingmenn og minnst var á hér að ofan hafa þegar lagt fram breytingartillögu við frumvarp Katrínar Jakobsdóttur þess efnis, en í henni felst að að bæta nýrri grein við stjórnarskránna þess efnis. Í greininni á enn fremur að segja að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að „fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé frumvarpið samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal það staðfest af forseta lýðveldisins innan tveggja vikna og er þá gild stjórnarskipunarlög.“
Til þrautarvara vill Stjórnarskrárfélagið að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um fyrirhugaðar breytingar á gildandi stjórnarskrá samhliða komandi alþingiskosningum.