Samræmd bólusetningavottorð innan Evrópusambandsins gætu verið tilbúin til notkunar innan þriggja mánaða, segir framkvæmdastjóri sambandsins.
Leiðtogar ríkja innan ESB komu saman á fjarfundi í gær til að ræða sameiginlegar aðgerðir í kórónuveirufaraldrinum. Ræddu þeir m.a. um einhliða lokanir landamæra og aðgerðir ólíkra ríkja sambandsins, hversu hægt hefur miðað í bólusetningum og útgáfu samræmds bólusetningavottorðs.
Ríki sunnarlega í álfunni, m.a. Grikkland og Spánn, hafa kallað eftir samræmdu bólusetningavottorði, og hafa sagt það leiðina til að koma ferðaþjónustunni, sem þau stóla svo mikið á, af stað á ný.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, er meðal þeirra sem styður hugmyndina og sagði slík vottorð geta „tryggt og verndað“ greinar sem hefðu barist í bökkum í faraldrinum, s.s. lista- og menningargeirann, íþróttir og veitingahús.
Fleiri hafa ýtt opinberlega á eftir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að hefja útgáfu vottorðanna, m.a. Manfred Weber, leiðtogi hægrimanna á Evrópuþinginu. Hann hefur sagt vottorðin „bráðnauðsynleg“ og að þau myndu „skipta sköpum“, ekki síst í ljósi þess hversu hægt bólusetningar innan ESB hafa gengið hingað til. Hann hefur lagt til að fólk fái vottorðin á sama tíma og það komi í bólusetningu.
Grikkir eru orðnir mjög óþreyjufullir og hafa þegar myndað ferðabandalag við Ísrael, landið þar sem bólusetningar eru komnar lengst í heiminum vegna sérstaks samnings við lyfjafyrirtækið Pfizer.
Önnur ríki, á borð við Frakkland og Þýskaland, hafa verið meira hikandi við útgáfu samræmdra bólusetningavottorða. Þar hafa yfirvöld m.a. sagt að með slíkum vottorðum væri verið að beita fólki þrýstingi til að fara í bólusetningu, sem er valkvæð, og að vottorðin og þau fríðindi sem þeim myndu fylgja gætu valdið mismunun. Innan þessara ríkja hafa sumir embættismenn svo sagt að þó að þeir styðji gagnagrunna með upplýsingum um bólusetta sé of snemmt að gefa út samræmd bólusetningarvottorð til að liðka fyrir ferðalögum fólks.
Áður en slík vottorð verða gefin út, „verður í fyrsta lagi að vera fullvíst að bólusettir séu ekki lengur smitandi,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í viðtali í gær. „Á meðan fjöldi þeirra sem er bólusettur er enn miklu minni en þeirra sem eru að bíða eftir bólusetningu, á hið opinbera ekki að meðhöndla þessa hópa með ólíkum hætti.“
Þrír mánuðir langur tími
Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, sagði hins vegar eftir fund leiðtoga þess í gær, sagði að innan þriggja mánaða gæti kerfi um útgáfu samræmdra bólusetningavottorða verið tilbúið til notkunar. Hún sagði að tæknilegar úrlausnir stæðu fyrir dyrum – og að því myndi þróun kerfisins taka tíma. „Þess vegna þurfum við að minnsta kosti þrjá mánuði,“ sagði hún.
Þessi tímafreka útfærsla hefur komið sumum á óvart og hefur Euronews m.a. eftir Guntram Wolff, framkvæmdastjóra þekkingarsetursins Bruegel, að útgáfan ætti að vera nokkuð einföld í framkvæmd. „Við erum þegar að gefa út samræmd bólusetningavottorð og þau eru notuð til að staðfesta til dæmis að þú sért bólusettur gegn gulusótt þegar þú ferð til ákveðinna landa. Það gæti tekið einhvern tíma að aðlaga slík vottorð en þegar upp er staðið þá er ég viss um að þetta eru engin geimvísindi og ætti að vera frekar einfalt og vel framkvæmanlegt.“