Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra braut gegn jafnréttislögum er hún skipaði Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu síðla árs 2019. Þessi niðurstaða kærunefndar jafnréttismála stendur, en Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfu ráðherra um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála í málinu.
Dómur í málinu var kveðinn upp á tólfta tímanum og sagt er frá niðurstöðunni á vef RÚV. Samkvæmt fréttinni þarf íslenska ríkið að greiða 4,5 milljónir króna vegna málskostnaðar Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærði ráðningu Páls til kærunefndar jafnréttismála.
Greint var frá því í júní í fyrra að kærunefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið jafnréttislög er hún skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra árið 2019. Hún hefði vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfust voru talin í starfið.
Til þess að fá þessum úrskurði hnekkt þurfti ráðherra að höfða mál gegn Hafdísi Helgu persónulega. Það vakti nokkra furðu. Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, sagði að sú ákvörðun hefði komið á óvart. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar,“ sagði hún við RÚV þann 24. júní.
Ákvörðun Lilju um að stefna Hafdísi Helgu til að fá úrskurðinum hnekkt byggðist á lögfræðiálitum sem ráðherrann aflaði sér eftir að niðurstaða kærunefndarinnar lá fyrir. Þau voru sögð benda til lagalegra annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Kjarninn óskaði eftir þessum lögfræðiálitum frá ráðuneytinu sama dag og ljóst var að málið stefndi fyrir dómstóla, en þau reyndist ómögulegt að fá.
Úrskurðarnefnd upplýsingamála staðfesti synjun ráðuneytisins á gagnabeiðni Kjarnans í lok sumars, en niðurstaðan var sú að bréfaskipti hins opinbera við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað skuli undanþegin upplýsingalögum.
Blæbrigðamunur á umfjöllunum hæfisnefndar
Málið var tekið til aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok janúarmánaðar. Í umfjöllun Fréttablaðsins úr dómsal kom fram að lögmaður íslenska ríkisins hefði sagt Pál hafa staðið sig betur í atvinnuviðtali sínu og ekki væri hægt að líta fram hjá huglægu mati hæfisnefndar og ráðherra um leiðtogahæfni hans.
Hafdís taldi hinsvegar að hæfisnefndin hefði gert lítið úr reynslu hennar í opinberri stjórnsýslu og rangt hefði verið farið með hversu lengi hún starfaði hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hafdís Helga hefur starfað í opinberri stjórnsýslu í 25 ár, verið forstöðumaður nefndarsviðs Alþingis, skrifstofustjóri í tveimur ráðuneytum og aðallögfræðingur bæði Alþingis og Samkeppniseftirlitsins.
„Hún starfaði við opinbera stjórnsýslu,“ sagði um Hafdísi í umsögn hæfisnefndar. Um Pál sagði nefndin: „Hann hefur langa reynslu við ábyrgðarmikil stjórnsýsluverkefni,“ en Páll er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu og hefur starfað sem bæjarritari hjá Kópavogsbæ og sem aðstoðarmaður ráðherra. Hafdís Helga taldi þetta mikinn blæbrigðamun, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.