Um 400 manns eru nú í sóttkví á Íslandi vegna smita sem hafa verið greind síðustu daga. Á fjórum sólarhringum hafa 24 greinst með veiruna innanlands. Flestir hafa þeir einstaklingar verið fullbólusettir. Búast má við að fleiri fari í sóttkví í dag.
Í gær greindust sjö og af þeim voru fjórir utan sóttkvíar. Allt fólkið var bólusett, segir í tilkynningu frá almannavörnum.
Þá greindust einnig sjö með veiruna á landamærunum í gær.
Frá því hætt var að skima bólusetta ferðamenn, börn og fólk með vottorð um fyrri sýkingu við landamærin þann 1. júlí hafa 30 tilfelli af COVID-19 greinst innanlands. Þau má ýmist rekja annað hvort beint til landamæranna eða til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi gærdagsins.
Á sama tímabili hafa 47 greinst á landamærunum með veiruna. Flest smitin eru af delta-afbrigði veirunnar sem er mun meira smitandi en önnur.
Hann sagði einnig að bólusetningar væru ekki að veita þá vörn sem vonast hafði verið eftir. Þær drægju vissulega verulega úr hættu á alvarlegum veikindum en fólk væri enn að sýkjast og smita aðra, þrátt fyrir að vera bólusett.
„Við sjáum að smit eru að koma yfir landamærin með ferðamönnum, einkum bólusettum. Við sjáum að smit með fólki sem er að koma virðist einkum dreifast innanlands frá þeim sem eru hér með tengslanet, Íslendingum. Flest innanlandsmitin eru hjá fullbólusettum einstaklingum. Ég tel fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun sem við erum að sjá. Þó að ég sé ekki með tillögur til ráðherra um hertar aðgerðir innanlands nú gæti sú staða komið upp fljótlega fari ástandið versnandi.“
Ef grípa þurfi til aðgerða sagði Þórólfur að það yrðu þær sem við hefðum þegar góða reynslu af í faraldrinum hingað til.
„Að sjálfsögðu bindum við vonir við að bólusetning muni skapa viðspyrnu gegn útbreiddum faraldri,“ sagði hann og minnti á að um 70 prósent þjóðarinnar væri nú fullbólusett. Hins vegar væri áfram full ástæða til þess að hvetja alla til að viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir til að hamla frekari útbreiðslu.