Samtals eru 24 börn fimm ára og yngri með COVID-19 á landinu. Tíu börn í þessum aldurshópi greindust með veiruna í gær. Eitt þeirra er ekki orðið eins árs. Þá greindist einn einstaklingur yfir sjötugu með sjúkdóminn í gær og sjö manns yfir sextugu eru nú í einangrun.
Þetta má lesa út úr tölum sem birtar eru á vefnum covid.is.
Í gær greindist 21 innanlandssmit. Samanlagt hafa því 65 greinst með veiruna frá því á föstudag. Smitin eru meðal annars rakin til tveggja einstaklinga sem fóru ekki að reglum í sinni sóttkví eftir komu til landsins og hópsýking á leikskóla í Reykjavík er meðal annars þannig til komin.
Alls eru 113 einstaklingar á landinu með virkt smit og í einangrun. 41 er yngri en átján ára.
Hið breska afbrigði veirunnar hefur verið allsráðandi hér á landi undanfarnar vikur. Í öllum þeim tilvikum sem smit hafa greinst innanlands hefur verið hægt að rekja þau til landamæranna.
Alma Möller landlæknir hefur bent á að breska afbrigðið hagi sér að ákveðnu leyti nokkuð öðru vísi en fyrri afbrigði. Það leggst í fyrsta lagi frekar á yngra fólk en þau sem við höfum hingað til glímt við og í öðru lagi er það meira smitandi. En fleira við veirur af þessu tiltekna afbrigði vekur áhyggjur.
„Við höfum séð í auknum mæli að fólk er neikvætt í fyrri skimun en jákvætt í þeirri seinni. Hlutfallið þar hefur breyst,“ sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær um greiningar á landamærum. „Við höfum líka dæmi um það að fólk var búið að fara í sýnatöku og fá neikvætt þó að það væri með einkenni. Við erum enn að læra á þetta nýja breska afbrigði og höfum jafnvel á tilfinningunni að fólk sé að greinast seinna.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vakti athygli á því á upplýsingafundinum í gær að þrátt fyrir að fólk væri oftar að greinast í seinni landamæraskimun en áður væru aðeins örfá dæmi þess að einstaklingar væru að greinast eftir báðar skimanirnar. „Það er teljandi á fingrum annarrar handar.“ Sagðist hann því ekki telja rétt að lengja sóttkví, sem nú er fimm dagar, á milli skimana. „En maður getur vel séð fyrir sér hvernig það geti verið að svona margir sem framvísi neikvæðu PCR-prófi en greinast engu að síður með veiruna á landamærum, annað hvort í fyrri eða seinni skimun.“ Um 70 prósent þeirra sem eru að greinast við landamærin hafa sýnt neikvætt PCR-próf, þ.e. höfðu ekki greinst í sýnatöku á upprunastað.
Fjórðungur fullorðinna bólusettur
Um 70.500 manns á Íslandi hafa fengið að minnsta kosti annan skammtinn af bóluefni sínu. Það þýðir að um fjórðungur allra eldri en sextán ára, hefur fengið bóluefni. Samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda, sem uppfært var í síðustu viku, eiga allir fullorðnir að verða búnir að fá að minnsta kosti fyrri sprautuna fyrir júlílok.
Enn eru engin áform um að bólusetja börn. Tilraunir eru hafnar á bóluefnum á börnum, m.a. í Ísrael.