„Við höfum séð í auknum mæli að fólk er neikvætt í fyrri skimun en jákvætt í þeirri seinni. Hlutfallið þar hefur breyst,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. „Höfum líka dæmi um það að fólk var búið að fara í sýnatöku og fá neikvætt þó að það væri með einkenni. Erum enn að læra á þetta nýja breska afbrigði og höfum jafnvel á tilfinningunni að fólk sé að greinast seinna.“
„Við erum búin að hamra á þessu á hverjum einasta degi í um eitt og hálft ár,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hann ítrekaði – enn og aftur – mikilvægi þess að gæta að sér og sinna persónubundnum sóttvörnum og fara í sýnatöku við minnstu einkenni.
Um helgina greindust 44 með kórónuveiruna innanlands þar af 27 í gær. Flestir þeirra voru í sóttkví við greiningu en sá hópur var að uppistöðu aðeins búinn að vera í sóttkví í 1-2 sólarhringa. „Svo það er enn mögulegt að þau hafi náð að smita útfrá sér áður,“ sagði Þórólfur. „Það getur skipt verulegu máli.“
Um er að ræða tvær hópsýkingar, báðar af völdum breska afbrigðis veirunnar. Báðar má rekja til landamæranna.
Sú stærri tengist leikskólanum Jörva þar sem 36 hafa greinst, þar af fjórtán börn, sextán starfsmenn og sex með fjölskyldutengsl við leikskólann.
Hin hópsýkingin tengist fyrirtæki og hafa átta manns greinst í kringum hana.
Báðar þessar hópsýkingar tengjast einstaklingum sem hafa farið óvarlega í sóttkví eftir komuna til landsins að sögn Þórólfs. Einnig má rekja sýkingarnar til þess að fólk hafi komið veikt til vinnu, ekki haldið sig til hlés og ekki farið í sýnatöku þrátt fyrir einkenni.
„Þessar hópsýkingar sýna í raun hvernig einn einstaklingur getur sett af stað stóra hópsýkingu og jafnvel heila bylgju,“ sagði Þórólfur. „Þessi hópsmit sýna einnig mikilvægi þess að bíða ekki með að fara í sýnatöku við minnstu einkenni.“
Ef smit greinast víðar þarf harðari aðgerðir
Hann sagði þessa reynslu sýna mikilvægi þess að tryggja landamærin sem best og sjá til þess að fólk sem hingað kemur haldi sóttkví og einangrun. Þórólfur sagði á þessari stundu ekki ljóst hvort að grípa þurfi til harðari aðgerða innanlands. Smitin má rekja til manneskju sem kom til landsins áður en hertari aðgerðir tóku gildi á landamærunum. „Ef við förum hins vegar að sjá og greina smit annars staðar, þá er líklegt að við þurfum að gípa til harðari aðgerða.“
Í dag verða víðtækar skimanir í kringum hópsýkingarnar tvær. Einnig eru fyrirhugaðar tilviljunarkenndar skimanir í samfélaginu. Þetta verður að öllum líkindum gert í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu.
„Atburðir helgarinnar eru vissulega vonbrigði og við höfum fengið nú staðfest svo um munar að breska afbrigðið er til staðar í samfélaginu. Megum ekki láta þetta slá okkur út af laginu heldur gera betur,“ sagði Alma. „Við höfum séð í auknum mæli að fólk er neikvætt í fyrri skimun en jákvætt í þeirri seinni. Hlutfallið þar hefur breyst. Höfum líka dæmi um það að fólk var búið að fara í sýnatöku og fá neikvætt þó að það væri með einkenni. Erum enn að læra á þetta nýja breska afbrigði og höfum jafnvel á tilfinningunni að fólk sé að greinast seinna.“