Á síðastliðnum tólf dögum hafa 53 greinst með COVID-19 innanlands. Af þeim voru tíu utan sóttkvíar við greiningu. Á sama tíma hafa 38 virk smit greinst á landamærunum, 23 í fyrri skimun og fimmtán í þeirri seinni.
Á landinu eru nú 108 manns í einangrun, þ.e. með virkt smit af kórónuveirunni. Langflestir eða 82 eru á höfuðborgarsvæðinu. 1.337 eru í sóttkví á landinu og um 95 prósent þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu.
Í gær greindust fjögur innanlandssmit og voru tveir utan sóttkvíar við greiningu. Samtals greindust tíu með veiruna um helgina og þrír voru utan sóttkvíar.
Þrjár tegundir af hinu svokallaða breska afbrigði veirunnar sem greinst hafa innanlands hafa ekki greinst í skimunum á landamærum. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sérstakt áhyggjuefni því þetta þýði að veiran er að „leka í gegnum landamærin“.
Í viðtali á Bylgjunni í morgun sagði hann ljóst að veiran hefði „mallað“ undir niðri í samfélaginu en að margir hafi síðustu daga verið settir í sóttkví og mörg sýni tekin þannig að hann vonar að smitum muni áfram fara fækkandi.
Hertar samkomutakmarkanir með tíu manna fjöldatakmörkunum tóku gildi i síðustu viku og verða í gildi til 15. apríl að óbreyttu.