Í gær greindust 56 með COVID-19 innanlands. Af þeim voru 43 fullbólusettir og ellefu óbólusettir. 38 einstaklingar, eða um 68 prósent, voru utan sóttkvíar við greiningu. 223 eru nú með sjúkdóminn og í einangrun á Íslandi.
Nýgengi innanlandssmita er komið upp í 42,5 á hverja 100 þúsund íbúa og 16,9 á landamærunum. Þessar tölur benda til þess að Ísland gæti færst af „grænum“ yfir á „appelsínugult“ innan skamms á litakóðunarkerfi því sem Evrópusambandið miðar við er kemur að ferðatakmörkunum. Í þeim útreikningum er einnig tekið tillit til hlutfall jákvæðra sýna sem tekin eru. Í gær reyndust 3,10 prósent einkennasýna sem tekin voru jákvæð af því 1.581 sem var tekið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að ný bylgja væri hafin og að mögulega stefndi í veldisvöxt. Slíkt kallaði mögulega á það að settar yrðu aðgerðir á innanlands á ný.
Aðgerðir á landamærunum verða hertar næsta þriðjudag og bólusettir krafðir um að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins. Aðeins þrjár vikur eru liðnar síðan að skimun þessa hóps á landamærunum var hætt.
Síðan þá hefur margt breyst og augljóst að veiran hefur lekið yfir landamærin í auknum mæli.
Þrennt skýrir helst fjölgun smita á Íslandi, því landi heims sem er hvað lengst komið í bólusetningum: Bólusetning minnkar líkur á smiti en kemur ekki í veg fyrir það, aflétting aðgerða og þar af leiðandi breytt hegðun fólks og í þriðja lagi landnám hæfasta afbrigði veirunnar til þessa. „Landslagið breyttist mikið með deltunni,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur sem fer í viðtali við Kjarnann yfir stöðuna með vísindin að vopni.
Hann segir „ekkert furðulegt“ við það að fullbólusett fólk smitist af veirunni og smiti jafnvel aðra. „Það var fyrirséð, sérstaklega í ljósi þess hvernig hegðun fólks úti í samfélaginu hefur verið upp á síðkastið,“ segir hann við Kjarnann. Engar takmarkanir eru lengur innanlands og margir virðast hafa tekið því þannig að það þýddi, þrátt fyrir varnaðarorð yfirvalda, að öll hætta væri liðin hjá. „Yfirvöld hafa vissulega sagt að það sé full ástæða til að fara varlega en fólk virðist ekki meðtaka það sem viðvörun. Það heyrir bara „aflétting“. Það heyrir góðu fréttirnar en ekki varnaglana.“