Fjallað er um könnun Leikmannasamtaka Íslands og samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðs í tillögum starfshóps KSÍ varðandi vinnulag, viðhorf og menningu þegar kemur að kynferðislegri áreitni og ofbeldi innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Könnunin var lögð fyrir leikmenn í vor og heildarniðurstöður verða birtar síðar en í skýrslu starfshóps KSÍ sem birt var í gær segir að í óbirtum gögnum könnunarinnar komi þó ýmislegt í ljós sem skiptir máli varðandi tilkynningar um ofbeldi, og þá einna helst að yfir 75% svarenda telja sig ekki vita hvert þau geta leitað ef ofbeldismál koma upp.
Það eitt og sér, að mati starfshópsins, gefur „tilefni til að bæta verulega upplýsingagjöf svo iðkendum sé ljóst að greina eigi frá ofbeldi og að þeir viti ávallt hvert þeir geti leitað og hvert ferli slíkra tilkynninga er.“ Mið er tekið af þessu í tillögum hópsins og því snýr ein þeirra sérstaklega að því að skýra leiðir og viðbrögð við ofbeldismálum innan KSÍ og hjá aðildarfélögum. Starfshópurinn er einn af fjórum sem KSÍ skipaði í lok ágúst eftir að umræða um kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið.
Þolendur geti tilkynnt um brot á heimasíðu félaga
Tillaga hópsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að framkvæmdastjóri, bæði innan KSÍ og hvers félags innan KSÍ, verði skilgreindur sem tengiliður við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Hlutverk framkvæmdastjóra verði að halda utan um tölfræði mála, bregðast við tillögum frá samskiptaráðgjafa og sinna eftirfylgd með málum.
Í öðru lagi leggur starfshópurinn til að upplýsingar um tilkynningar um ofbeldi og úrræði fyrir þolendur verði aðgengilegar á heimasíðum KSÍ og öllum félögum innan þess verði gert skylt að tilkynna á heimasíðum sínum hvert þolendur geta leitað. Félögin skulu bjóða tvær leiðir en önnur útiloki ekki hina. Þannig geta þolendur fengið að ræða við aðila innan félags ef aðeins er óskað eftir áheyrn og stuðningi. Þolendum gefst einnig kostur á að leita til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs þar sem mál fara í viðeigandi ferli, en tilkynningar þangað geta þó bæði verið formlega og óformlegar. Þá leggur hópurinn til að forðast skuli að leysa mál innan félags eða á skrifstofu KSÍ.
Í þriðja og síðasta lagi leggur hópurinn til að stuðst verði við verkferla sem starfshópur samskiptaráðgjafa gefur út. Sú vinna stendur yfir og verður niðurstaða hennar kynnt í byrjun næsta árs og miðar að því að gildi fyrir öll íþrótafélög Íþrótta- og ólympíusambans Íslands (ÍSÍ).
Leikmenn upplýsi um kærur vegna brota
Aðrar tillögur starfshópsins felast meðal annars í að uppfæra siðareglur og samninga þar sem skýrt skal kveðið á um ofbeldismál. Meðal annars er lagt til að bætt verði við sér grein um ofbeldi í siðareglurnar og opna kæru- og ábeningarleiðir fyrir öll sem starfa á vettvangi KSÍ varðandi brot á siðareglum. Þá er einnig lagt til að leikmannasamningar innihaldi ákvæði varðandi ofbeldisbrot, meðal annars að leikmenn skuldbindi sig til að upplýsa um kærur vegna kynferðis- og ofbeldisbrota.
Í tillögunum segir einnig að forysta KSÍ skuli taka skýra afstöðu gegn ofbeldi og sýni það í verki. Forystan eigi til að mynda að koma sér saman um orðanotkun og orðalag sem notað er um jafnrétti og ofbeldismál og að samræmi sé í orðavali fulltrúa, til dæmis í fjölmiðlaviðtölum. Þá er lagt til að KSÍ geri átak og verði leiðandi á sviði jafnréttismála innan íþróttahreyfingarinnar. Átakið felst meðal annars í því að KSÍ og öll félög þessi verði með jafnréttisáætlun og innan hennar aðgerðaráætlun sem fylgt er eftir. Þá er lagt til að ráðist verði í herferð gegn ofbeldi og skaðlegri menningu innan knattspyrnunnar.
KSÍ mun ekki breyta samfélaginu en „er í einstakri stöðu til að hafa mikil og jákvæð áhrif“
Starfshópurinn er einn af fjórum innan KSÍ sem skipaðir voru í haust til að fjalla um kynferðislega áreitni og ofbeldi innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hópinn skipuðu:
- Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands
- Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands
- Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur og fulltrúi í stjórn ÍSÍ. Formaður hópsins.
- Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi Íþrótta- og æskulýðsstarfs
- Sigurður Freyr Sigurðsson, lögmaður
- Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta
- Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í kynja- og hinseginmálum hjá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur
Í lokaorðum skýrslunnar segir starfshópurinn að umræðan og viðbrögðin sem urðu til þess að þessi hópur var kallaður saman sýni glöggt hversu mikil áhrif starfsemi KSÍ hefur á samfélagið og um leið hversu mikla ábyrgð stjórn og starfsfólk þess ber. „Starfshópurinn hvetur KSÍ til þess að taka þessu ábyrgðarhlutverki alvarlega og um leið fagnandi. Sambandið mun ekki eitt og sér breyta samfélaginu, en það er í einstakri stöðu til að hafa mikil og jákvæð áhrif.“