Alls greindust 78 manns með COVID-19 innanlands í gær, sem er mesti fjöldi smita sem greinst hefur það sem af er þessu ári. Alls voru tekin rúmlega 3.000 sýni hjá einstaklingum innanlands í gær.
Samkvæmt upplýsingum á tölfræðivef yfirvalda eru nú 287 manns í einangrun og 723 einstaklingar í sóttkví vegna útbreiðslu veirunnar hér innanlands.
Af þeim 78 sem greindust með veiruna í gær voru 52 fullbólusettir og fimm til viðbótar búnir að fá einn skammt bóluefnis. Átján manns voru óbólusett.
Lítill hluti smitaðra voru í sóttkví við greiningu, eða einungis 19 af þeim 78 sem greindust.
Eins og Kjarninn fjallaði um í gær er töluverður meirihluti þeirra sem eru að greinast með COVID-19 þessa dagana einstaklingar sem hafa verið bólusettir og ljóst að bólusettir geta bæði smitast af COVID-19 og dreift veirunni áfram.
Fleiri smit tengjast LungA á Seyðisfirði
Fleiri smit hafa nú greinst hjá einstaklingum sem voru staddir á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði í síðustu viku, en áður hafði verið greint frá því að tveir einstaklingar sem þar voru staddir hefðu greinst með COVID-19 og nokkur fjöldi fólks var kominn í sóttkví vegna þeirra smita.
Farsóttanefnd Landspítala sendi út tilkynningu í morgun þar sem því var beint til þeirra starfsmanna spítalans sem voru þar staddir að halda umsvifalaust í skimun.