Nýir raforkusamningar, hækkun á afurðaverði og aukin eftirspurn á mörkuðum gerðu það að verkum að orkusala hjá Landsvirkjun jókst í fyrra miðað við árið 2020. Á síðasta ári var salan um 14 terawattstundir, og þar af keyptu viðskiptavinir á stórnotendamarkaði, málmbræðslur og gagnaver, um 87 prósent eða um 12,2 terawattstundir. Stærsti hluti orkusölu var til viðskiptavina í áliðnaði.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu Landsvirkjunar sem kom út í lok síðustu viku. Um 1.750 megawött (MW) þarf til að framleiða 14 TWst af raforku á ári. Um það bil 1.525 MW þarf því til að framleiða þá orku sem stórnotendur keyptu af Landsvirkjun í fyrra.
Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, er 690 MW að uppsettu afli og getur unnið um 4,8 TWst á ári. Til að setja þetta í samhengi þá þurfti að nýta því sem nemur öllu uppsettu afli Kárahnjúkavirkjunar, Blönduvirkjunar, Búðarhálsvirkjunar, Búrfellsvirkjunar, Búrfells II og Hrauneyjafossvirkjunar til að anna orkukaupum stórnotenda Landsvirkjunar í fyrra.
Heildarframleiðsla raforku allra aflstöðva orkufyrirtækjanna á Íslandi hefur undanfarið verið um 20 TWst á ári. Um 2.500 MW vélarafl er nýtt til framleiðslunnar. Íslenski raforkumarkaðurinn skiptist í tvo aðskilda undirmarkaði – almennan markað og stórnotendamarkað. Stórnotendur nota um 80 prósent af raforkunni á Íslandi, önnur fyrirtæki um 15 prósent og heimili um 5 prósent.
Árið 2020 var mjög sérstakt að mörgu leyti í efnahagslegu tilliti. Faraldur COVID-19 litaði alla anga samfélagsins, eftirspurn eftir þjónustu jókst en minnkaði eftir vörum. En í fyrra breyttist allt og það nokkuð hratt. Viðsnúningur varð á erlendum mörkuðum og ál- og kísilverð hækkaði skarpt eftir að hafa náð sögulegu lágmarki árið 2020. Margir samverkandi þættir höfðu áhrif á hækkandi orku- og afurðaverð, segir í ársskýrslu Landsvirkjunar. Efnahagslífið tók við sér, eftirspurn jókst hratt og neytendur færðu sig fljótt yfir í kaup á vörum í stað þjónustu.
Framboð á áli og kísilmálmi var minna í fyrra en vænta mátti, af ýmsum orsökum. „Þar má fyrst nefna áhrif Kína, en stefna Kínverja í umhverfismálum felur í sér að draga bæði úr raforkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í skýrslu Landsvirkjunar. Settar voru takmarkanir á raforkunotkun og bæði ál- og kísilframleiðendur fengu fyrirmæli um að draga úr framleiðslu.
Kísilverð hækkaði um 200 prósent á tveimur mánuðum
Munur á lægsta álverði 2020 og hæsta verði 2021 var um 120 prósent, en meðaltalið var 43 prósent hærra. Í lok ársins var álverð í kringum 2.600 dollarar á tonnið. Til samanburðar er meðalverð síðustu tíu ára um 1.900 dollarar á tonnið. Hækkun á verði kísilmálms milli ára nemur að sögn Landsvirkjunar um 450 prósentum og þar af hækkaði það yfir 200 prósent á einungis tveimur mánuðum, frá september og út október 2021.
Landsvirkjun segir raforkuverð til stórnotenda á Íslandi aldrei hafa verið hærra sem rekja má til hækkandi afurðaverðs stórnotenda og hækkandi verðs á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool. Árið 2020 var meðalverð Landsvirkjunar 21 dollari á megavattstund en 32,7 dollarar á megavattstund fyrir árið 2021, sem gerir um 56 prósent hækkun milli ára.
Raforkukerfið „því sem næst fullselt“
„Verðmæti endurnýjanlegrar orku er að aukast og hefur þrýstingur frá allri virðiskeðjunni um lágt kolefnisspor mikil áhrif þar um. Einnig skiptir þetta sköpum í baráttunni við loftslagsbreytingar,“ segir Landsvirkjun og að þessi þróun sé staðfest með aukinni eftirspurn. Íslenska raforkukerfið sé nú „því sem næst fullselt“ og núverandi viðskiptavinir í ýmsum iðngreinum vilji auka raforkukaup sín. Einnig vilji nýjar tegundir viðskiptavina koma til Íslands, t.d. framleiðendur rafeldsneytis eða annars græns iðnaðar.
Fleiri tugir virkjanahugmynda
Orkuskipti, sem stjórnvöld hafa sett á oddinn sem lausn til að draga úr losun og vinna gegn hinum manngerða loftslagsvanda, eru talin þurfa á bilinu 4-24 TWst af orku á ári, eftir því hversu mikið innlent rafeldsneyti verður framleitt hér á landi, hversu langt verður gengið í orkuskiptum í öllum samgöngum og hversu miklum hagvexti er reiknað með. Þetta er niðurstaða skýrslunnar Staða og áskoranir í orkumálum sem unnin var af starfshópi er Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun árs.
En hvaðan ætti öll þessi orka að koma?
Í núgildandi rammaáætlun, sem samþykkt var á þingi 2013 og viðbætur gerðar á árið 2015, eru virkjunarkostir með samtals 1.151 MW að afli. Árleg orkugeta þeirra er um 9,2 TWst. Þessir kostir eru ýmist í jarðvarma eða vatnsafli og fæstir hafa nú þegar orðið að veruleika. Má þar nefna fjölda jarðhitavirkjana á Reykjanesi og á Kröflusvæði, vatnsaflsvirkjunina Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár að ógleymdri Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Orkustofnun hefur aðeins gefið út virkjunarleyfi fyrir þrjá kosti í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar: Gráhnúka á Hengilsvæði, Hverahlíð á sama svæði og Þeistareyki. Að þeim frátöldum eru því í nýtingarflokki samtals um 764 MW af áætluðu afli í tíu virkjanakostum.
Fyrir Alþingi liggur nú tillaga að flokkun virkjanakosta á grunni 3. áfanga rammaáætlunar. Þar eru tillögur um átta nýja virkjanakosti í nýtingarflokk sem bætast við þá sem eru þar fyrir. Þessir átta virkjanakostir eru samtals með um 657 MW uppsetts afls. Árleg orkugeta er um 4,6 TWst.
Með samþykkt Alþingis á 3. áfanga, eins og hann er lagður fram, yrðu samtals 1.421 MW í nýtingarflokki í 18 mögulegum virkjanakostum. Um 80 virkjunarkostir til viðbótar eru í ferli verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem meta þarf og gera tillögur að flokkun í nýtingu, bið eða vernd.
Stóriðjan þarf meira
Fjölmargar hugmyndir að vindorkuverum hafa svo sprottið upp síðustu ár. Engin slík er í gildandi rammaáætlun, einn er í nýtingarflokki óafgreiddu tillögunnar að þriðja áfanga – en margar liggja á borði verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar. Stjórnvöld hyggjast setja sérlög um meðferð slíkra kosta.
Samkvæmt raforkuspá orkuspárnefndar er gert ráð fyrir að stórnotendur, þ.e. málmbræðslur og gagnaver, noti rúmlega 16 TWst af orku á þessu ári, 8,5 prósentum meira en árið 2020. Samkvæmt spánni mun orkuþörf heimila landsins aukast um þrjú prósent.
Skiptar skoðanir eru um hvaða leiðir eigi að fara til að minnka áhrif loftslagsbreytinga. Þær eru einnig skiptar þegar kemur að aðgerðinni „orkuskipti“. Álitaefnin varða meðal annars mismunandi mat á því hve mikla raforku þurfi til orkuskipta í samgöngum og til fullra orkuskipta, á hvaða landsvæðum hennar skuli aflað, og hvernig miðlað, og loks með hvaða vinnsluaðferðum raforkunnar er aflað.
Engar sjálfstæðar greiningar
Landvernd segir til að mynda að ef skýrsla starfshóps umhverfis- og orkumálaráðherra um stöðu og horfur í orkumálum verði grundvöllur ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar sé „ljóst að náttúra Íslands á sér engan talsmann í ríkisstjórninni“. Samtökin telja að skýrslan gefi ekki skýra mynd af því sem henni var ætlað að sýna – og að ekki hafi verið til staðar greiningar eða gögn sem unnin voru af hlutlausum aðilum um vænta orkunotkun til framtíðar. „Starfshópurinn vann ekki sjálfstæðar greiningar heldur tók við greiningum orkugeirans og gerði þær að sínum,“ sagði í tilkynningu Landverndar.
Í skýrslunni sé í raun ekki tekið á stærsta álitamálinu sem tengist orkuvinnslu á Íslandi, sem sé sú eyðilegging íslenskrar náttúru sem orkuvinnslunni fylgir. „Náttúra landsins og víðerni eru undirstaða stærstu útflutningsgreinar okkar, en er einnig gríðarlega verðmæt til útivistar, bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Náttúra Íslands hefur gildi í sjálfu sér og náttúruvernd er einnig loftslagsaðgerð.“
Landvernd segir ennfremur að skýrslan taki ekki til margra raunverulega orkusparandi aðgerða sem séu grundvöllur orkuskipta eins og til dæmis fjölbreytts ferðamáta, fækkunar flugferða og minnkaðrar eldsneytisnotkunar sjávarútvegsins.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur einnig gagnrýnt umræðuna um hina miklu orku sem þurfi til orkuskipta. Hann sagði m.a. í aðsendri grein í desember að óselt rafmagn á síðasta ári, miðað við fulla vinnslugetu, hafi verið nóg til að knýja alla einkabíla í landinu. „Þannig að það vantar ekkert rafmagn á rafbíla,” sagði hann. Á ársfundi OR sem fram fór fyrir helgi sagði hann svo að mikill þrýstingur væri nú á að virkja meira en að það þætti honum ekki réttlætanlegt á þessu stigi.