„Ég dæmi ekki konur sem selja sig en ég dæmi karlana sem kaupa konurnar; á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð. Mér finnst að það þurfi að fræða karlmenn um vændi, hvað það er og hvaða áhrif það hefur.“
Þetta segir ein konan sem deilir reynslu sinni af því að hafa verið í vændi í nýrri bók Brynhildar Björnsdóttur Venjulegar konur – Vændi á Íslandi sem kom út í dag.
Í bókinni ræðir Brynhildur við sex íslenskar konur sem hafa verið í vændi, venjulegar konur sem bera reynslu sína ekki utan á sér en lýsa hræðilega erfiðum aðstæðum í vændinu. Jafnframt fjallar höfundur um fyrirbærið vændi í sögu og menningu, lítur yfir íslenska fjölmiðlaumfjöllun um vændi og lýsir hugmyndafræðilegum átökum í tengslum við lagasetningu.
Venjulegar konur sem eiga skilið að njóta virðingar
Þá ræðir Brynhildur við fagfólk sem vinnur með þolendum vændis – fulltrúa Stígamóta og Bjarkarhlíðar, auk lögreglunnar, og birtir ný talnagögn um afleiðingar vændis. Loks er kastljósinu varpað á kaupendur og ræðir hún við einn slíkan. Bókin er rituð að frumkvæði og í samvinnu við Evu Dís Þórðardóttur, brotaþola vændis og baráttukonu.
Í bókinni kemur fram að engin þessara kvenna beri fortíð sína utan á sér. „Þetta eru allt venjulegar konur sem falla inn í fjöldann. Sumar hafa náð að byggja upp líf eftir vændið, sem þær eru sáttar við, aðrar eru enn í því ferli.“ Höfundur bendir á að konur sem verða fyrir vændi séu ekki frábrugðnar öðrum konum hvað varðar þrá, drauma, vonir og langanir. „Þetta eru venjulegar konur sem eiga skilið að njóta jafn mikillar virðingar og viðurkenningar á mennsku sinni hjá samferðafólki sínu og allar aðrar konur.“
„Ógeðslega erfitt ferli“ að vinna úr svona reynslu
Ein konan segir að oft reyni á mörkin í þessum aðstæðum. „Ég er mjög meðvirk og rosalega léleg í að standa með sjálfri mér, sérstaklega þegar ég er augliti til auglitis við einhvern, ég á auðveldara með það gegnum tölvu eða síma.“ Seinna í frásögninni greinir hún frá því að hennar langanir og vilji hafi ekki verið til umræðu við vændiskaupin, hún hafi verið einhverra þúsundkalla virði og það „var allt og sumt“.
Önnur segir að svona samskipti snúist ekki um kynlíf. „Þau snúast um stjórn. Þetta líður kannski út eins og kynlíf og virkar eins og kynlíf en er svo langt frá því að vera það. Kynlíf er í grunninn nánd og traust og ánægja, en vændi er ekkert af þessu, allavega ekki frá mínum sjónarhóli.“ Þetta snúist um stjórn og viðskipti sem báðir tapa á.
Hún segist jafnframt ekki eiga nógu mörg orð yfir hvað það „er ógeðslega erfitt ferli að vinna úr svona reynslu“.
„Ég hélt að í vændinu væri ég í mikilli sjálfsstyrkingu en í staðinn fór ég í þveröfuga átt, yfir í misnotkun og valdaleysi. Ég barðist mjög lengi við þetta, þessa ógeðistilfinningu á sjálfri mér, sem ég veit núna að á engan rétt á sér. Ég hataði þennan hluta af lífi mínu en ég hata ekki sjálfa mig.“
Alveg á hreinu hver ræður – Hvenær sem var gat „eitthvað hræðilegt“ komið fyrir
Margar konurnar tala um hugtakið „stjórn“. Ein segir að alveg sama hvernig hún ætlaði að telja sér trú um að hún gæti bara valið sér kúnna og þá væri allt æðislegt þá hafi það þó aldrei verið raunveruleikinn. „Svo var það líka þannig að um leið og ég hitti mennina var ég búin að missa stjórnina. Þarna var ég búin að semja við einhverja manneskju um að sofa hjá fyrir pening og mér fannst ég aldrei geta hætt við. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði einhvern tíma sagt að ég treysti mér bara ekki í þetta, ég þorði aldrei að láta á það reyna.“
Hún segir enn fremur að enginn stundi vændi af áhuga á kynlífi. Með því að taka peningana „ertu búin að samþykkja einhvers konar samskipti sem eiga ekkert skylt við kynlíf“.
Hún segir að mennirnir hafi ekki verið ógnandi en þó hafi ekkert farið milli mála hver réði. „Þeir voru ekki endilega eitthvað með kassann frammi, þessir menn, eða að sýna einhverja valdatilburði. En það var alveg á hreinu hver réði. Þeir borguðu mér og þar af leiðandi stjórnuðu þeir ferlinu, og hvenær sem var gat eitthvað hræðilegt komið fyrir og ég hafði enga stjórn á því.“
Aðeins síðar í frásögninni segir hún að henni hafi liðið svo illa á þessu tímabili að hún sá sér ekki fært að halda áfram að lifa, „það var bara spurning um hvenær ég ætlaði að drepa mig“.
Hún segir að ekki sé hægt að afmá fótspor vændisins og að það geti haft gríðarlegar afleiðingar á lífið seinna meir. „Þegar ég byrjaði í vændinu sá ég ekki fyrir mér að það hefði afleiðingar á líf mitt fimmtán árum seinna.“
Hrædd við karlmenn eftir alla þessa reynslu
Önnur kona lýsir einnig þessum afleiðingum. Hún segir að vændið venjist ekki og verði bara verra með tímanum. „Ég man ekki eftir fyrsta skiptinu, og þetta urðu að lokum svo ógeðslega margir karlmenn að þetta rennur allt saman í eitt.“
Hún segist aldrei hafa haft neitt vald inni í aðstæðunum til að segja nei eða skoðun á því sem mennirnir gerðu. „Ég átti bara að uppfylla óskir þeirra. Einstaka maður vildi reyndar fá að vita hvað ég vildi gera og þá fékk ég bara sjokk og sagði: „Ertu að spyrja mig?““
Þá greinir hún frá því að vændið hafi gert það að verkum að hún er hrædd við karlmenn. „Ég er aldrei með karlkyns lækna og á vinnustöðum þarf ég alltaf að venjast karlmönnum í kringum mig og sannfæra sjálfa mig um að þeir séu ekki að fara að gera mér neitt. Og ég get ekki hugsað mér að eignast karlkyns maka.“
„Mér fannst hreinlega eins og ég væri að nauðga“
Í bókinni segir frá því að erfitt sé að fá vændiskaupendur til að tjá sig um reynslu sína en einn karlmaður tjáir sig þó. Hann hafi keypt vændi erlendis þegar hann var um þrítugt. Hann hafi í fyrstu litið á þetta sem ævintýri sem hann langaði til að prófa en fljótlega hafi upplifunin snúist upp í andhverfu sína.
„Ég sé sjálfan mig við það sem ég er að gera og ég bara einhvern veginn missti allt og hugsaði með mér: Nei, þetta gengur ekki! Mér fannst hreinlega eins og ég væri að nauðga, og ekki bara henni, líka sjálfum mér! Og vildi bara komast út eins fljótt og hægt væri.“
Hann segir að þessi upplifun sitji mjög djúpt í honum. Hann hafi verið kominn í aðstæður sem hann ætlaði sér ekki að vera í og að hann hafi upplifað að hann væri að gera eitthvað sem ætti að vera heilagt á milli fólks sem er ástfangið, eða allavega gott fyrir alla. „En í staðinn var þetta allt saman afskaplega sorglegt og ég hef ekki enn þann dag í dag getað skilið tilfinninguna almennilega. En ég veit að stór hluti var uppgötvunin á neyð hennar sem ég var að misnota og að fatta að ég var einhver sem gat gert það. Og það var mikil sjálfsfyrirlitning sem fylgdi þeirri uppgötvun, eins og ég hafi verið misnotaður af sjálfum mér og gersamlega gengið yfir mín eigin mörk.“ Hann segir að þetta sé ein af hans verstu upplifunum.
Maðurinn telur að í grunninn séu margir karlmenn sama sinnis og hann – hafi fundið fyrir þessari vondu tilfinningu í slíkum samskiptum en hafi kannski bægt henni frá sér.