Skipulag móttöku flóttafólks frá Úkraínu stendur yfir hjá forsætisráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, auk náins samstarfs við samhæfingarmiðstöð almannavarna.
Samhæfing verkefnisins er í höndum ráðuneytisstjórahóps undir forystu Bryndísar Hlöðversdóttur, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Stýrihópur undir forystu Gissurar Péturssonar, ráðuneytisstjóra í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, hefur yfirumsjón með verkefninu en framkvæmdin er í höndum framkvæmdahóps undir forystu Gylfa Þórs Þorsteinssonar, sem var áður forstöðumaður farsóttarhúsanna.
Í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um hversu margir flóttamenn séu væntanlegir hingað til lands segir að það fari að miklu leyti eftir því hversu lengi stríðið í Úkraínu dragist á langinn. Eins og staðan er núna er gert ráð fyrir á bilinu 1.500-4.000 einstaklingum en það gæti breyst með litlum fyrirvara.
Ætla að afgreiða 20-30 umsóknir á dag
Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu hafa 623 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi það sem af er ári, þar af 323 frá Úkraínu. Þegar er búið að veita 42 einstaklingum frá Úkraínu vernd en ráðgert er að afgreiða 20-30 umsóknir á dag frá og með þessari viku. Fjöldi umsókna um vernd hefur verið um 20 að meðaltali síðustu sjö daga.
Hluti af undirbúningnum síðustu daga er æfing á virkjun neyðarviðbragðs þar sem gert er ráð fyrir að allt að 500 manns sæki um alþjóðlega vernd á nokkrum dögum. Við virkjun slíks viðbragðs er viðbragðskerfi Almannavarna virkjað en slík áætlun hefur verið til lengi. Í svari ráðuneytisins til Kjarnans segir að vonir standi til að ekki þurfi að virkja slíkt neyðarviðbragð en ef til þess kemur verði það eingöngu í nokkra daga.
Meðal ákvarðana sem teknar hafa verið vegna móttöku flóttafólks frá Úkraínu er opnun skráninga- og upplýsingamiðstöð fyrir flóttafólk sem verður opnuð í húsnæði Domus Medica á næstu dögum.
Mun taka tíma að finna varanlegt húsnæði
Alls hafa um 300 aðilar boðið fram húsnæði fyrir flóttafólk frá Úkraínu til lengri og skemmri tíma í gegnum sérstaka skráningarsíðu sem Fjölmenningarsetur stendur fyrir. Skoða þarf öll tilboðin en fyrir liggur að það muni taka tíma að finna varanlegt húsnæði, að því er segir í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þessa stundina er unnið að því að koma upp bráðabirgðahúsnæði og er útfærsla á því til skoðunar meðal annars í Reykjavík, Ölfusi og Borgarbyggð.
Um miðja síðustu viku hóf Útlendingastofnun að gefa út leyfi fyrir einstaklinga sem leituðu hingað frá Úkraínu og er venjan að fólk sé allt að tvær vikur í úrræðum hjá Útlendingastofnun áður en flutt er í varanlegt húsnæði.
Þá fundaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið í síðustu viku með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna, ásamt félagsmálastjórum víðsvegar um landið vegna skipulags á komu flóttafólks frá Úkraínu. Aðalefni fundarins var að ræða stöðu þeirra einstaklinga sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín til nágrannaríkja í kjölfar innrásar Rússlands í landið og hvernig best er að haga móttöku þeirra hér á landi. Fundurinn hafði einnig þann tilgang að fylgja eftir áskorun ráðuneytisins þar sem sveitarfélögin í landinu voru hvött til þess að leggja móttöku flóttafólksins lið eftir getu og möguleikum.
Að sögn ráðuneytisins er megináhersla þessa stundina lögð á samvinnu allra þeirra sem koma að móttöku flóttafólks frá Úkraínu. „Við lærðum margt í viðbrögðum okkar við heimsfaraldri COVID-19 og sú þekking og reynsla nýtist okkur vel í viðbragðinu núna,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um gang mála við skipulagningu móttöku flóttafólks. „Við ætlum að taka á móti þeim sem hingað leita og gera það vel.“