Verkamannaflokkurinn í Bretlandi segist hafa sannanir fyrir því að Keir Starmer, leiðtogi flokksins, og starfslið hans hafi haldið áfram að sinna vinnu eftir að hafa snætt skyndibita og drukkið bjór á skrifstofu þingmanns flokksins.
Umrætt atvik er til rannsóknar hjá lögreglunni í Durham sem mögulegt brot á gildandi sóttvarnareglum. Atvikið átti sér stað 30. apríl 2021 á skrifstofu þingmannsins May Foy í Durham. Á myndskeiði sem er nú í dreifingu sést Starmer fá sér bjór með samstarfsfólki sínu.
The British public deserve politicians who know the rules apply to them.
— Keir Starmer (@Keir_Starmer) May 9, 2022
Who hold themselves to the highest standards.
Who put the country first.
Britain will always get that from me. pic.twitter.com/1l2nGnRwkX
Uppákoman hefur fengið viðurnefnið „Beergate“ og þykir óneitanlega svipa til „Partygate“-hneykslisins svokallaða þar sem Boris Johnson forsætisráðherra gerðist brotlegur gegn ströngum sóttvarnareglum sem voru í gildi á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Breska lögreglan sektaði Johnson, Carrie Johnson eiginkonu hans og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, fyrir að vera viðstödd afmælisveislu forsætisráðherra sem fram fór í Downingstræti 10 19. júní 2020. Johnson hefur ítrekað beðist afsökunar á afmælisveislunni, sem og tveimur samkvæmum til viðbótar þar sem hann var viðstaddur, en telur sektina ekki ástæðu til afsagnar.
Samkvæmt heimildum The Guardian hefur þingflokkurinn tekið saman gögn, meðal annars myndskeið, skjöl og samskipti úr WhatsApp sem sýna fram á að hópurinn sem fékk sér að borða saman hafi snúið aftur til vinnu að því loknu og verið að störfum til klukkan eitt eftir miðnætti.
„Við höfum verið hreinskilin með það að engar reglur voru brotnar. Við munum leggja fram gögn sem sanna að fólk var við störf fyrir og eftir málsverðinn.“ segir heimildarmaður flokksins.
Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á mánudag sagði Starmer að engin lög hefðu verið brotin. Starmer hefur ítrekað kallað eftir afsögn Johnson og Rishi Sunak fjármálaráðherra, sem var einnig sektaður. Starmer segir málin ólík og bendir á að gildandi sóttvarnareglur á þessum tíma hafi vissulega bannað samkomur innandyra en að vinnutengdir viðburðir hafi verið undanskildir og það hafi verið tilfellið, hann hafi „einfadlega verið að fá sér að borða og vinna frameftir“.
Starmer tók því vissa áhættu með því að leggja pólitísk örlög sín í hendur lögreglunnar í Durham. Af hverju ákvað hann að gera það? Að öllum líkindum þar sem hinn kosturinn, að segja ekkert, er álitinn verri af honum sjálfum og pólitískum ráðgjöfum. Nú er staðan í raun einföld: Ef lögreglan sektar Starmer mun hann segja af sér, annars ekki. Búast má við niðurstöðu lögreglu innan tveggja mánaða.